Albanskur karlmaður sem er búsettur á Íslandi er grunaður um að hafa orðið Armando Beqirai að bana um síðustu helgi í Rauðagerðismálinu svokallaða. Á heimili hans fundust merki um að skotið hefði verið úr byssu á sjálfu heimilinu. Vísir greinir fyrst frá þessu.
Eins og staðann er núna eru tíu í haldi lögreglu. Samkvæmt Fréttablaðinu gaf maðurinn sem um ræðir sig fram við lögreglu seint á þriðjudagskvöld, með aðstoð verjanda síns. Þá kemur fram að hvorki hann né aðrir sem eru í haldi lögreglu hafi játað aðild aðild að málinu.
Af mönnunum tíu sem eru í haldi lögreglu er einungis einn Íslendingur. Sá maður er Anton Kristinn Þórarinsson, sem var mikið í fjölmiðlum í janúar sökum leka á lögreglugögnum sem gáfu til kynna að hann hefði verið uppljóstrari hjá fíkniefnalögreglunni.
Eftir að fréttir af gagnalekanum fóru á flug mun Anton hafa sótt sér í auknum mæli vernd erlendra manna. Þessi menn eru nú meðal þeirra sem eru í haldi lögreglu vegna málsins.