Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segist blaðið hafa heimildir fyrir þessu. Fram kemur að átök standi yfir um yfirráð í fíkniefnaheiminum í kjölfar þess að stórtækur íslenskur fíkniefnasali hafi nýlega byrjað að draga sig í hlé. Morgunblaðið segir einnig að lögreglan óttist að til hefndaraðgerða kunni að koma.
Lögreglan hefur lítið viljað segja um málið annað en að rannsókn þess sé í algjörum forgangi. Hinn handtekni var í gærkvöldi úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudags vegna rannsóknar málsins.
Nágranni sem DV ræddi við í gær sagði að hinn látni og fjölskylda hans hafi keypt húsið, sem morðið var framið við, í fyrra. Jafnframt var haft eftir honum að töluverð umferð hafi oft verið við húsið, fólk að koma og fara. Morgunblaðið hefur eftir nágrönnum að mikið hafi verið um grunsamlegar mannaferðir við húsið eftir að fjölskyldan flutti þar inn.