Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við DV í kvöld að ekki væri að vænta frekari tilkynninga frá lögreglu um morðið í Rauðagerði fyrr en í fyrsta lagi á morgun, mánudag. Hugsanlegt er að tilkynnt verði um nafn hins látna á morgun.
Fram kom í fréttum RÚV í kvöld að lögregla rannsaki nú hvort árásin tengist uppgjöri í undirheimum. Samkvæmt vef Fréttablaðsins tengjast hinn myrti og maðurinn sem er í haldi lögreglu vegna málsins áhrifamönnum í íslenskum undirheimum.
Fram kom í frétt RÚV í kvöld að sérsveitin hefði verið kölluð til aðstoðar í útkallið. Er lögregla kom á vettvang laust fyrir miðnætti í gærkvöld lá maðurinn í blóði sínu fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. Hafði hann verið skotinn til bana. Athyglisvert er að nágrannar heyrðu enga skothvelli. DV hefur meðal annars rætt við mann sem býr í næsta húsi og varð hann fyrst var við þessa atburði eftir að lögregla kom á vettvang. Hvorki hann né aðrir á heimilinu heyrðu skothvelli. Gaf þessi maður skýrslu hjá lögreglu í dag.
Samkvæmt frétt RÚV var lögregla við störf á vettvangi í alla nótt og fram yfir hádegi í dag. Var húsið afgirt. Notast var við dróna, hunda og málmleitartæki við rannsókn á vettvangi.
Hinn látni var á fertugsaldri og er frá Albaníu. DV hafði í dag samband við konu sem tengist manninum og er skráð til heimilis í húsinu. Hún vildi ekki tjá sig um málið.
Maðurinn sem er í haldi lögreglu vegna málsins er einnig erlendur og er á fertugsaldri.