Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu vegna mannsláts í austurborginni í gærkvöld. Var tilkynnt um slasaðan karlmann fyrir utan hús. Skömmu eftir komu á Landspítalann var maðurinn úrskurðaður látinn.
Búist er við annarri tilkynningu frá lögreglu vegna málsins í dag en tilkynningin er svohljóðandi:
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að húsi í austurborginni um miðnætti í gærkvöld, en þar var tilkynnt um slasaðan karlmann utan við húsið. Endurlífgunartilraunir hófust strax á vettvangi og í kjölfarið var maðurinn fluttur á Landspítalann, en var úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna þangað. Maðurinn var á fertugsaldri.
Rannsókn málsins er á frumstigi, en einn er í haldi í þágu hennar.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Búast má við annarri tilkynningu frá lögreglu þegar rannsókn málsins vindur fram, líklega síðar í dag.“