fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

„Syndaaflausn“ Jóns Baldvins snérist upp í andhverfu sína – „Verið að tala um kynferðislegt óargadýr“

Heimir Hannesson
Föstudaginn 12. febrúar 2021 21:30

Jón Baldvin Hannibalsson og lögmaður hans Vilhjálmur H. Vilhjálmsson í dómsal Héraðsdóms Reykjavíkur. mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Seinni helmingur aðalmeðferðar í máli Jóns Baldvins Hannibalssonar gegn dóttur sinni Aldísi Schram, Sigmari Guðmundssyni og RUV fór fram í Héraðsdómi í dag. Fóru þar fram málflutningsræður lögmanna málsaðila þar sem þeir færðu fram lagaleg rök sín fyrir kröfum sem hafðar voru uppi í málinu.

Jón Baldvin höfðaði málið í kjölfar viðtals við Aldísi sem spilað var á Rás 2 í janúar 2019.

Á miðvikudaginn fóru fram skýrslutökur vitna og stóðu þær í á níundu klukkustund. Mikill hiti var í vitnum og sagði DV frá því að minnstu mátti muna að upp úr syði er Aldís og systir hennar, Kolfinna Baldvinsdóttir rákust saman í dyragætt dómsals. Þá varð Kolfinna Baldvins uppvís að því að senda vitnum í málinu skilaboð á Facebook kvöldið fyrir vitnaleiðslur.

Sjá nánar: Aldís gekk á Kolfinnu í réttarsal – „Þú ert svo viðbjóðsleg“

Sjá nánar: Kolfinna Baldvins hafði samband við vitni kvöldið fyrir réttarhöldin

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður Jóns Baldvins í málinu sem beinist að ummælum sem ýmist Aldís, eða Sigmar höfðu uppi í viðtali þess síðarnefnda við þá fyrrnefndu á Rás 2. Þá er Aldísi jafnframt stefnt vegna einna ummæla sem hún lét falla á Facebook í kjölfar viðtals við Jón í Silfri Egils.

Sjá nánar: Fjölskylduuppgjör í réttarsal – Hrollvekjandi lýsingar Aldísar í vitnastúku

Tölvupóstar og SMS ekki nóg fyrir fólk á níræðisaldri

Sagði Vilhjálmur í sínum málatilbúnaði að ummæli Aldísar væru úr lausu lofti gripin og að Jón Baldvin hefði aldrei verið dæmdur fyrir neitt. Þá gerði Vilhjálmur vinnubrögð Sigmars að umræðuefni. „Það er ámælisvert og stangast á við reglur RUV að fara með í loftið alvarlegar ásakanir um sifjaspell sem varða allt að átta ára fangelsi ef sök sannast án þess að gefa stefnanda [Jóni Baldvini] kost á að tjá sig um þessar ásakanir,“ sagði Vilhjálmur. Í vitnisburði Sigmars fyrir dómi á miðvikudaginn kom fram að reynt hefði verið að hringja í Jón Baldvin, meðal annars í farsíma þeirra hjóna. Þegar símtölum var ekki svarað sendu blaðamenn RUV Jóni tölvupóst, sem og SMS. Eitt gagna í málinu er skjáskot af smáskilaboði sem Jóni var sent.

Vilhjálmur vakti athygli á því að tölvupósturinn var sendur nokkrar mínútur í fimm daginn fyrir viðtalið, og SMS skilaboðið enn síðar. „Hér er verið að senda rafræn skilaboð til fólks á níræðisaldri. Það er ekki endilega hægt að ætlast til þess, og gera sömu kröfur til fólks, með fullri virðingu, á þeim aldri og gerðar eru til þeirra sem stanslaust standa hina rafrænu vakt vegna starfa sinna eða af öðrum ástæðum,“ sagði Vilhjálmur. „Í þessu viðtali eru refsiverðar og alvarlegar sakir og það bar að gefa honum kost á að svara.“

Lögmaður Aldísar, Gunnar Ingi Jóhannsson, svaraði þessu og sagði Jón ekki „einhvern mann út í bæ.“

Varnir Jóns „furðulegar“

Gunnar lýsti því þá að þegar Aldís var fyrst nauðungarvistuð árið 1992 var faðir hennar utanríkisráðherra. Síðan þá, sagði Gunnar, hefur Jón Baldvin alltaf svarað öllum ásökunum um kynferðisafbrot með því að ásakanirnar séu vegna geðrænna vandamála Aldísar og séu runnar undan rifjum hennar. „Hann [Jón Baldvin] hefur sagt að eitt einkenni geðhvarfa séu furðusögur um kynlíf. Þetta eru þessar furðulegu varnir [Jóns],“ sagði Gunnar.

„Þessar furðulegu varnir kunna að hafa virkað eitthvern tímann, en auðvitað hlustar enginn á þetta í dag,“ lýsti Gunnar jafnframt yfir í ræðustól.

Fyrr í kvöld sagði DV.is frá því að tekist hefði verið á um tilgang notkunar Jóns á bréfsefni Sendiráðs Íslands í Washington er hann óskaði eftir nauðungarvistun dóttur sinnar.

Sjá nánar: Hart tekist á um notkun Jóns á bréfsefni sendiráðsins – Útskýringar Jóns hafðar að háði – „Þessu trúir ekki nokkur maður“

Bréfamál Guðrúnar Harðar opnaði á málið

Árið 2012 kom mál Guðrúnar Harðardóttur upp en Jón Baldvin varð þá uppvís að hafa á nokkurra ára tímabili sent Guðrúnu ósæmileg bréf. „Viðbrögð [Jóns Baldvins] voru eftir sem áður að benda á stefndu og andleg veikindi hennar, meint. Þessi bréf voru skrifuð árin 1997-2000 og í einu bréfanna var sérstaklega óskað að því yrði haldið leyndu fyrir öðrum.“ Guðrún var í 8. bekk þegar bréfið var sent, að sögn Gunnars.

Gunnar sagði þá skýringar Jóns Baldvins fyrir bréfaskriftunum ótrúverðugar. „Þessu trúir heldur enginn nokkur maður, hvort sem Jóni Baldvini líkar það betur eða verr.“

Árið 2005 leitaði Aldís til lögreglu vegna meintra kynferðisbrota Jóns Baldvins og lýsti Gunnar því að Aldís væri sjálf löglærð og því vitað að málið væri fyrnt. Því hafi hún ekki kært, heldur aðeins tilkynnt ætluð brot Jóns. Gunnar sagði að niðurstaða þeirrar tilkynningar hefði verið að brotin væru ýmist fyrnd eða að þau hefðu verið framin erlendis og að íslensk lögregla hefði ekki lögsögu í málinu. „Það átti eftir að nýtast honum vel síðar,“ skaut lögmaðurinn svo inn. Vísaði hann þar til þess að ákæru Héraðssaksóknara gegn Jóni Baldvini var fyrr á þessu ári vísað frá héraðsdómi þar sem ósannað þótti að brotin hefðu verið andstæð gildandi rétti á Spáni, þar sem þau áttu að hafa verið framin. Jón var þar ákærður fyrir að hafa strokið utanklæða „upp og niður“ yfir rass konu sem var gestur Jóns Baldvins og Bryndísar Schram, eiginkonu Jóns, á heimili þeirra þar í landi.

Lögmaður Aldísar sagði að tímamót hefðu orðið með tilkomu „me-too“ byltingarinnar eins og hún er gjarnan kölluð. „Tímamótin urðu árið 2017, þegar að þessi alþjóðahreyfing undir nafninu „metoo“ gegn kynbundnu ofbeldi brýst fram og gerir þolendum afbrota, kynferðisafbrota, kleift að tjá upplifanir sínar og brotaþolar finna fyrir styrk frá öðrum. Það er mjög erfitt fyrir brotaþola, sérstaklega þegar gerendur eru þjóðþekktar persónur, að koma á framfæri frásögnum sem þessum vegna þess að aðstöðumunurinn er svo mikill,“ sagði Gunnar.

Lýsti lögmaðurinn þá fjölmörgum ásökunum sem komu fram á síðunni „me-too Jón Baldvin.“ Síðar í máli Jóns kom fram að konurnar væru á fjórða tug, og að um 20 þeirra hefðu nú stigið fram undir nafni.

„Drottningarviðtal“ Jóns í Silfrinu ekki á allra færi

Síðan þá hefur Jón Baldvin haft greiðan aðgang að fjölmiðlum, ólíkt [Aldísi], sagði Gunnar. „[Jón Baldvin] hefur síðan þá nýtt það tækifæri til þess að segja sömu söguna: Að þetta sé nú allt tilbúningur stefndu Aldísar sem að sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Það má geta nærri, að ef hann hefði nú svarað símanum þegar Sigmar reyndi að hringja í hann, þá hefði sennilega verið hægt að birta það svar „copy/paste.“ Það hefði sennilega verið skýringin hans.“

Gunnar sagði Jón Baldvin hafa notað aðgang sinn að fjölmiðlum til þess að kasta rýrð á trúverðugleika Aldísar. Það hafi hann svo enn og aftur gert með því sem kallað var „drottningarviðtal“ í Silfur Egils í febrúar 2019, aðeins hálfum mánuði eftir viðtal Rásar 2 við Aldísi. Síðar benti hann á að það væru ekki allir sem gætu fengið hálf tíma viðtal í vinsælasta sjónvarpsþætti RUV, og sagði hann það dæmi um áðurnefndan aðstöðumun á Jóni og Aldísi.

„Hvernig nýtti [Jón Baldvin] þetta tækifæri? Til að koma því á framfæri að þetta væri allt saman uppspuni frá Aldísi og að þarna væri að störfum fámennur hópur öfgafeminísta sem ynni gegn íslenska réttarríkinu.“ Lögmaður Aldísar kallaði þá skýringar Jóns Baldvins „kafkaískar,“ og ótrúverðugar.

Kynferðislegt óargadýr?

Lögmaðurinn sagði þá að málið sem um ræðir væri „hvorki meira né minna en prófsteinn á lýðræðið.“ „Ef að það verður niðurstaða þessa máls að það sé tilefni til þess að ómerkja ummæli [Aldísar], þá felur það í sér að það sé bara hægt að loka þessum metoo síðum á Íslandi.“

Gunnar, lögmaður Aldísar, hélt áfram:

„Það yrði athyglisverð niðurstaða í ljósi þess að þegar þessar sögur eru lesnar, getur sá sem þær les ályktað að þar sé verið að tala um kynferðislegt óargadýr. […] og menn verða að spyrja sig: Er einhver ástæða fyrir því að tugir kvenna greina frá slíkum sögum. Hópi sig saman til þess að spinna upp sögur um einn mann. Það er ekki hægt að ímynda sér að þetta sé allt tilbúningur.“

Líkt og DV greindi frá áður er aðalmeðferð í málinu nú lokið og er dóms að vænta innan fjögurra vikna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“