fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Völva DV 2022 – Meirihlutinn fellur í borginni, mikið mæðir á Willum og fjármálahneyksli hjá Pírötum

Ritstjórn DV
Föstudaginn 31. desember 2021 11:30

Árið verður misgott hjá stjórnmálaleiðtogum landsins - Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ár hvert er það hefð DV að birta ítarlega Völvuspá í lok árs þar sem spámiðill er fenginn til þess að skyggnast bak við huliðstjöld framtíðarinnar og reyna að greina hvað sé að fara að gerast í íslensku þjóðfélagi á næsta ári. Eftir nokkra leit samþykkir miðill, kona á besta aldri sem býr í nágrannasveitarfélagi Reykjavíkur að taka verkefnið að sér og setjast niður með blaðamanni DV.

Eins og alltaf við slíka iðju er fyrirvörum komið á framfæri. „Það er hægara sagt en gert að líta yfir svo breytt svið og reyna að skynja hvað er í vændum á næsta árið. Það er mun erfiðara en að sitja með einhverjum í sama herbergi og reyna að spá fyrir um framtíð hans,“ segir Völva DV þetta árið.

Þess ber að geta að völvuspá DV verður birt í nokkrum hlutum yfir hátíðarnar en hér að neðan má lesa um hvaða Völva DV telur að eigi sér stað í stjórnmálum landsins á næsta ári.

Við ákveðum að byrja á pólitíkinni, fólkinu sem svo sannarlega er í víglínu fjölmiðla og samfélagsins alls, alla daga ársins. Framundan eru sveitarstjórnarkosningar, þann 14. maí næstkomandi, og því þarf engan spámiðil til að sjá það fyrir að þessir frambjóðendur munu eiga að mestu leyti sviðið í byrjun árs. Áhugasamir frambjóðendur byrja fljótlega að stíga fram í dagsljósið og prófkjör og uppstillingar á lista eru yfirvofandi.

Augu flestra verður á Reykjavíkurborg þar sem búast má við hatrammri baráttu, bæði innan flokkanna og síðan í kosningunum. Fyrsta spurning til Völvunnar er það sem allir velta fyrir sér, mun Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, gefa áfram kost á sér?

„Ég skynja að Dagur sé enn óákveðinn og sveiflist reglulega enda er þetta risastór ákvörðun. Hann er kominn vel á veg með því að umbylta borginni með þéttingu byggðar og yfirvofandi Borgarlínu og í fullkomnum heimi þá myndi hann vilja taka eitt kjörtímabil í viðbót og klára það verkefni. En undir niðri blunda áhyggjur hans að hann lúti í lægra haldi í kosningum og endi glæstan feril sem óbreyttur borgarfulltrúi. Það er nóg af erfiðum málum sem andstæðingar hans geta hamast á, ekki síst skólamálin, Sorpuklúðrið og fjárhagsstaða borgarinnar.“

Þá segist Völvan sjá í kortunum að stórt og erfitt mál muni blossa upp í aðdraganda kosninga. „Það mál mun aldrei þessu vant ekki snúast um byggingu heldur finnst mér það tengjast tölvum og verkefnum í tengslum við þær. Kostnaður við þau fer gjörsamlega úr böndunum og fólki mun blöskra fjárausturinn. Þetta mál mun reynast meirihlutanum afar erfitt.“

Dagur er óákveðin varðandi framhaldið. En meirihlutinn fellur sama hvað.

Hildur fær mótframboð

Önnur stór spurning er hvort að Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi, muni leiða Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum. Hún hefur ein gefið kost á sér í oddvitasætið en á dögunum ákvað Eyþór Arnalds, núverandi oddviti, að draga sig í hlé frá stjórnmálum. „Ég skynja hana sterkt í tveimur orrustum, sennilega fyrst innan flokksins og svo í sveitastjórnarkosningunum. Ég held að það blasi við að hún fái mótframboð, kraftmikinn nýliða í pólitík. Hvort að sá eigi erindi í Hildi tel ég ólíklegt en viðkomandi gæti orðið ferskt andlit á lista flokksins fyrir komandi kosningar.“

Kosningabaráttan verði þó óvenju hófstillt miðað við suma innanbúðarslagi Sjálfstæðisflokksins og enginn liggi óvígur eftir.

Aðrir flokkar fara í mismunandi ásigkomulagi inn í kosningarnar. Talsverður styr mun standa í kringum Líf Magneudóttur sem mun sækjast eftir því að leiða VG inn í aðrar kosningar en þykir ekki hafa skilað merkilegu verki – sérstaklega er aðkoma hennar að Sorpuskandalinum þess eðlis að margir myndu íhugsa að kasta inn hvíta handklæðinu.

Völvan segir að mikil ládeyða einkenni Viðreisn í borginni, líkt og í landsmálunum, og að kjósendur flokksins ættu að vera uggandi. Það eigi þó ekki við Miðflokkinn enda eru alltaf læti í kringum Vigdísi Hauksdóttur, oddvita flokksins. „Vigdís er ekki á þeim buxunum að hætta, hún er að gera sig klára í næsta“ segir Völvan en spurning er hvort að hinn fámenni hópur sem kemur að starfi Miðflokksins í borginni telji vænlegt að tefla Vigdísi fram að nýju.

Gunnar Smári í hefndarhug

Völvan segist skynja það að meirihlutinn muni falla í borgarstjórnarkosningum, hvort sem að Dagur taki slaginn eða ekki. Andstæðingarnir hafi einfaldlega of mörg vopn á hendi sér.

Þá muni gamall draugur vakna í íslenskum stjórnmálum – Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni. Þeir sem munu freista þess að setja hann á oddinn munu samt reka sig á það kjósendur í Reykjavík hafa takmarkaðan áhuga og fleiri eru að verða á þeirri skoðun að völlurinn verði að víkja.

Þá munu Sósíalistar með Gunnar Smára Egilsson í broddi fylkingar leggja allt í sölurnar í borginni. „Sósíalistar upplifðu mikil vonbrigði í Alþingiskosningunum og þurfa á því að halda að standa sig vel í sveitarstjórnarkosningunum. Þetta eru því gríðarlega mikilvægar kosningar og ég sé mikinn kraft í kringum Gunnar Smára – hann mun leggja allt í sölurnar en óvíst er hvort kjósendur leggja við hlustir.“

Í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkurborgar mun það helsta draga til tíðinda að eitt öruggt vígi Sjálfstæðisflokksins mun nötra. „Tilfinning mín er sú að óvænt tíðindi verða líklegast á Seltjarnarnesi en þó kraumar eitthvað í Garðabæ einnig. Það verður að minnsta kosti tvísýnna en oft áður og ekki útilokað að mjög óvænt tíðindi eigi sér stað“.

Willum stendur í ströngu

Eins og áður segir munu Alþingismennirnir njóta þess að vera utan sviðsljóssins að einhverju leyti fyrstu mánuði ársins. Nánast einskonar hveitibrauðsdagar en þó verði heilbrigðismálin í forgrunni útaf Covid og nánast einoka hina pólitísku umræðu á þinginu.  Mikið mun því mæða á Willum Þór Þórssyni, heilbrigðisráðherra. Margir eru á þeirri skoðun að hann hafi gert mistök í byrjun með því að reyna að sætta alla aðila með hörðum sóttvarnarreglum en að sama skapi undanþágum fyrir valda aðila.

Willum stendur í ströngu á árinu

„Ég upplifi mikla orku í kringum Willum og ég held að næsta ár verði honum farsælt. Hann er tilbúinn til að höggva á hnúta innan kerfisins sem forverinn batt bara fastar. Þá nýtur hann góðs af því að kórónuveirufaraldurinn verður í rénun á árinu þó að engar ákvarðanir sem teknar eru geri alla ánægða. Hann mun átta sig á því fljótt og vel og verða afdráttarlausari.“

Katrín Jakobsdóttir er nýbúin að vinna varnarsigur, nánast eins síns liðs, fyrir stjórnmálaflokk Vinsti-grænna í Alþingiskosningunum. Margir töldu stjórnarsamstarf VG við Sjálfstæðismenn og Framsókn vera koss dauðans en Katrín var mótefnið sem hratt banvænu eitri hægrisins.

„Ég sé ákveðna værð en að sama skapi ákveðni yfir Katrínu. Ég skynja enga ólgu framundan hjá henni persónulega þó að verkefnin séu afar krefjandi. Hin umdeildu mál sem munu ýta við þjóðinni á næstunni virðast þó vera á borðum annarra ráðherra. Katrín er því afar sátt í sínu skinni,“ segir Völvan.

Ákveðinn hluti grasrótar fólksins, sem eru lengst til vinstri, virðast þó vera afar óánægðir. Jafnvel svo mikið að það er ekki útilokað að einhverjir yfirgefi flokkinn sem Katrín hefur óumdeilanlega fært inn á miðju stjórnmálanna. „Það eru aðrir flokkar orðnir vinstri sinnaðri en VG og því gætu óánægðir leitað sér griða þar.“

Sigurður Ingi kann illa við gagnrýni

Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, virðist sigla lygnan sjó í sínu ráðuneyti og á yfirborðinu virðist allt vera í góðum málum.  „Það kraumar þó óánægja undir niðri innan Framsóknarflokksins. Samskipti ráðherra flokksins eru ekki eins og best verður á kosið og því má lítið útaf bregða. Helsta ástæðan fyrir því er sú að Sigurður Ingi kann því illa að vera gagnrýndur og fer í fýlu og útilokar menn um tíma eða alfarið ef það er gert. Slíkir stjórnunarhættir enda alltaf með tárum. En út á við verður þó ekki tekið af Sigurði Inga að hann hefur gert vel í að hreinsa Framsóknarflokkinn af ruglinu og gera hann að traustum hófsömum miðjuflokki sem allir geta hugsað sér að starfa með.“

Þegar minnst er á Bjarna Benediktsson segir Völvan að hún upplifi þverrandi áhuga hjá stjórnmálanum. „Bjarni hefur ekki sömu ástríðuna fyrir verkefninu og er farinn að horfa til lífsins eftir stjórnmálin. Ég er sannfærð um þetta verði hans síðasta kjörtímabil. Það skyldi þó aldrei vanmeta áhrifamenn eins og Bjarna sem eru farnir að sjá endalokin í stjórnmálum fyrir sér. Hann mun fara að hugsa um arfleið sína og ekki víla fyrir sér að taka stórar ákvarðanir. Kannski skrifar hann bók eins og Dagur.“

Allt í rusli hjá Guðlaugi

Þá segir Völvan að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, muni verða í krefjandi verkefnum á árinu. „Hann situr uppi með Svarta Pétur. Heittrúuðum umhverfissinnum fara að lengja eftir aðgerðum í ráðuneyti hans, og mun Guðlaugur þar með verða lykilmaður í að halda friðinn milli Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna. Ég skynja að allt sé í rusli hjá honum og reikna með að sorp- og endurvinnslumálin hér á landi, sem eru í fullkomnum ólestri, munu reynast honum mjög erfið.“ Það hafi Guðlaugur Þór líklega ekki séð fyrir þegar hann tók við lyklavöldunum, hann hefur eflaust ætlað að skemmta sér við að rafvæða og kolefnisjafna.

Verkefni annarra ráðherra verða ekki áberandi á næsta ári. „Ég skynja ekki að aðrir ráðherrar verði áberandi á árinu. Það verður róstursamt utan landsteinanna, sérstaklega varðandi Rússland og Kína, og því mun helst mæða á Þórdísi Kolbrúnu að haga seglum eftir vindi og fordæma jafnvel hitt og þetta þegar þannig ber undir. Ég sé einhver tengsl milli utanríkisráðherra og Póllands og því gæti verið að Þórdís Kolbrún muni leggja áherslu á hagsmuni Íslands í Austur-Evrópu.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra. Mynd: DV/Hanna

Kristrún og Jóhann Páll áberandi

Samfylkingin er í sárum eftir niðurstöðu síðustu kosninga og Völvan segir það blasa við að Logi Einarsson sé á útleið sem formaður flokksins. „Logi mun víkja fyrir nýjum formanni á kjörtímabilinu en mun þó ekki hverfa af þingi. Hann hefur afar gaman af stjórnmálum og starfsumhverfinu og mun því reyna að endurskilgreina sig og berjast fyrir pólitísku lífi sínu.“ Þá segist Völvan sjá það fyrir sér að þingmenn tveir nýir þingmenn Samfylkingarinnar verði afar áberandi á næsta ári – Kristrún Frostadóttir og Jóhann Páll Jóhannsson. „Kristrún býr yfir þekkingu og reynslu sem gerir það að verkum að á hana verður hlustað. Skítkastið og gagnrýnin í stjórnmálunum mun þó bíta á hana og spurning hversu hratt hún mun ná að brynja sig fyrir því. Jóhann Páll er hins vegar afar metnaðarfullur og hefur reynslu af því að lenda í orrahríð sem fjölmiðlamaður. Þau tvö munu valda usla á árinu.“

Kristrún og Jóhann Páll láta til sín taka á árinu

Molnar undan Þorgerði Katrínu

Þegar Viðreisn ber á góma segist Völvan ekki skynja neitt sérstakt. „Það eitt og sér virðist benda til þess að Viðreisn verði ekki mikið í umræðunni.“ Það eru augljóslega hrikaleg tíðindi fyrir flokk í stjórnarandstöðu en kannski framhald af kosningabaráttu flokksins þar sem snyrtileg, málefnaleg en átakalaus stefnumál flokksins náðu engan veginn í gegn til kjósenda. „Það er byrjað að molna undan Þorgerði Katrínu sem leiðtoga flokksins.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þá segir Völvan það blasa við að Miðflokkurinn sé í andlitslitrunum. „Ég sé ekkert í kortunum sem mun breyta því. Sigmundur Davíð nær ekki lengur eyrum þjóðarinnar eins áður sem sýndi sig bersýnilega í síðustu kosningabaráttu. Hann er ráðalaus og það er ekkert sem bendir til upprisu á næsta ári. Þetta verður síðasta kjörtímabil Miðflokksins.“

Fjármálahneyksli hjá Pírötum

Inga Sæland einnig verða áberandi á næsta ári en þó aðeins á völdum tímapunktum. „Inga mun öskra sig hása þegar að þörf er á. Hún kann þá list hvenær hún á að beita sér og hvenær er best að halda sig á mottunni. Kjósendur fengju fljótt leið á henni ef hún væri í hverri viku að blása í fjölmiðlum. Meðreiðarsveinar hennar inná þingi munu hins vegar vera í skugganum og helst komast í fréttir fyrir atriði sem tengjast pólitík ekki á nokkurn hátt.“

Björn Leví verður síðan áfram í því hlutverki að fara í taugarnar á meirihlutanum. „Málflutningur hans og fyrirspurnir fara oft í taugarnar á valdhöfunum og það verður engin breyting á því á næsta ári.“ Völvan segist hins vegar sjá fyrir að innra starf Pírata verði að talsverðu hneykslismáli á næsta ári. „Ég sé talsverðan storm í kringum flokkinn og fjármál hans. Þar virðist vera mikil óreiða og það er hrikaleg staða fyrir stjórnmálaflokk ef að í ljós kemur að flokkurinn kunni ekki að fara með fé.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hagkaup lofa bót og betrun eftir að Vesturbæingar helltu úr skálum reiði sinnar

Hagkaup lofa bót og betrun eftir að Vesturbæingar helltu úr skálum reiði sinnar
Fréttir
Í gær

Beygja sig fyrir kröfum Trump og afhenda óklippt viðtal – Sagt ógna fjölmiðlafrelsi

Beygja sig fyrir kröfum Trump og afhenda óklippt viðtal – Sagt ógna fjölmiðlafrelsi
Fréttir
Í gær

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allsherjar uppnám á nefndarfundi í borginni – Ásakanir um geðþóttavald og lögbrot

Allsherjar uppnám á nefndarfundi í borginni – Ásakanir um geðþóttavald og lögbrot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Haukur ákærður fyrir manndrápstilraun gegn leigubílstjóra sem braut á ungri stúlku – „Þarna eru lögreglumenn að ljúga upp á borgara“

Haukur ákærður fyrir manndrápstilraun gegn leigubílstjóra sem braut á ungri stúlku – „Þarna eru lögreglumenn að ljúga upp á borgara“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ógnaði ökumanni með hnífi við Dalshraun

Ógnaði ökumanni með hnífi við Dalshraun
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flugslysið hörmulega: Ákvað að fara fyrr heim til að komast á stefnumót með kærastanum

Flugslysið hörmulega: Ákvað að fara fyrr heim til að komast á stefnumót með kærastanum