Þegar hjónin Þorbjörg Inga Þorsteinsdóttir og Ólafur Páll Vignisson komu heim ásamt fjölskyldu sinni eftir jólaboð blasti við þeim afar ófögur sjón en hálfdauður rottuungi lá í forstofunni. Um kvöldið fundu þau svo annan lifandi rottuunga inni í húsinu.
„Við höfum nú fengið það staðfest frá tveimur meindýraeyðum að um rottuunga sé að ræða,“ segir Þorbjörg í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni vegna málsins en hún veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um færsluna.
Í myndböndum sem öryggismyndavél fyrir utan heimili Þorbjargar og Ólafs tók upp má sjá ósvífinn einstakling troða rottuungunum inn á heimili þeirra í gegnum bréflúguna og ganga svo í burtu. Kyn einstaklingsins sem sést í myndbandinu er ekki vitað en einstaklingurinn er klæddur í úlpu og svartar buxur.
„Lögreglan er með málið til skoðunar,“ segir Þorbjörg en hún biður þá sem hafa einhverja vitneskju um málið að hafa samband við sig eða Ólaf í gegnum Facebook. „Við höfum undanfarna mánuði orðið fyrir umsátri og þurfum að vita hvort þetta sé partur af því að alveg ótengt. Það má deila þessu og við óskum innilega eftir allri aðstoð!“
Myndböndin af einstaklingnum að koma rottuungunum fyrir á heimilinu og ganga svo í burtu má sjá hér fyrir neðan: