fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Undrabarn lagði Carlsen og tryggði sér heimsmeistaratitilinn í atskák – Norðmaðurinn fordæmir heimskulegar reglur

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 29. desember 2021 12:00

Carlsen gefst upp í viðureigninni við Abdusattorov

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nodirbek Abdusattorov 17 ára stórmeistari frá Úsbekistan gerði sér lítið fyrir og tryggði sér heimsmeistaratitilinn í atskák í gær. Hann lagði grunninn að sigrinum með því að leggja ríkjandi heimsmeistara, Magnus Carlsen frá Noregi, að velli undir lok mótsins og tryggja sér svo sigur í æsispennandi bráðabana.

Heimsmeistaramóti í at- og hraðskák fer fram í Varsjá í Póllandi yfir hátíðirnar. Þar takast á bestu skákmenn heims en mesta athygli vekur náttúrulega þátttaka Norðmannsins Carlsen, sem er óumdeildur langbesti skákmaður heims.

Carlsen tryggði sér á dögunum heimsmeistaratitilinn í skák í fimmta sinn eftir að hafa lagt Rússann Ian Nepomniachtchi að velli í einvígi í Dubai fyrr í mánuðinum. Þar var um að ræða svokallaða kappskák þar sem keppendur hafa um tvær klukkustundir hvor til þess að ljúka skákinni auk þess sem viðbótartími bætist við eftir ákveðinn tíma.

Í atskák er umhugsunartíminn hins vegar mun styttri eða 15 mínútur og 10 sekúndur bætast síðan við hvern leik. Hraðskákin er síðan með enn styttri umhugsunartíma – 3 mínútur á skákina og 2 sekúndur fyrir hvern leik.

Eins og gefur að skilja verður oft mikill handagangur í öskjunni þegar umhugsunartíminn er svo stuttur og líkur á óvæntum úrslitum og dramatík aukast.

Undabarnið reyndist örlagavaldur

Flest benti til þess að Magnus Carlsen myndi verða öruggur sigurvegari HM í atskák. Mótið tók þrjá daga og eftir tvo fyrstu dagana var Norðmaðurinn efstur með 7,5 vinninga eftir 9. umferðir. Andstæðingur hans í 10.umferð á þriðja degi mótsins var áðurnefndur Abdusattorov sem gerði sér lítið fyrir og lagði Carlsen óvænt að velli og tók forystu í mótinu.

Carlsen gefst þó aldrei upp og með mikilli seiglu í síðustu þremur umferðum mótsins náði hann að ná efstu mönnum að nýju. Lokastaða mótsins varð sú að Abdusattorov, Nepomniachtchi, Carlsen og bandaríski ofurstórmeistarinn Fabiano Caruana urðu efstir og jafnir með 9,5 vinninga af 13 mögulegum.

Þá kom til þess, í takt við reglur mótsins, að reiknuð voru sérstök stig keppenda og aðeins þeir tveir með bestu stigin myndu tefla hraðskákseinvígi um titilinn. Niðurstaðan varð sú að  Abdusattorov og Nepomniachtchi voru með bestu stigin og tókust á í bráðabananum. Þar reyndist Abdusattorov hafa stáltaugar og hann lagði Rússann ólánsama að velli 1,5 – 0,5.

Carlsen brjálaður yfir heimskulegum reglum

Magnus Carlsen varð að gera sér bronsið að góðu en hann var ríkjandi heimsmeistari í atskák. Eftir að niðurstaðan lá fyrir fór Carlsen í viðtal hjá norska ríkissjónvarpinu og var vægast sagt fokvondur. „Þetta eru fullkomlega heimskulegar reglur. Annaðhvort eiga allir keppendur með sömu vinningatölu að tefla til úrslita eða enginn,“ sagði Carlsen.

Hann hefur áður fordæmt reglur varðandi bráðabana á skákmótum sem að geti verið mismunandi og ekki alltaf sanngjarnar að hans mati. Reglurnar lágu þó fyrir áður en mótið hófst og Carlsen viðurkenndi sök í málinu. „Ég hef ekki hugmynd um hvað FIDE [Alþjóða skáksambandið] hefur verið að gera. Ég verð að horfa í eigin barm því að hvorki ég né faðir minn höfum veitt FIDE nægilegt aðhald. Það er nauðsynlegt því annars klúðrar sambandið málunum í hvert einasta sinn,“ sagði Carlsen.

Hann var síðan spurður nánar út í hvort að hann teldi FIDE hafa klúðrað framkvæmd mótsins varðandi bráðabanareglurnar. „Já, það er alveg ljóst. Þegar þú ert með kerfi þar sem þetta er niðurstaðan. Ég held að flestir séu á því að þetta sé ekki sanngjörn niðurstaða. Maður var meðvitaður um þessar reglur en þeim verður að breyta. Það er skref í rétt átt að bráðabani sé tefldur en ég sé engin rök fyrir því að það eigi að takmarkast bara við tvo keppendur, það er of viðvaningslegt fyrir heimsmeistaramót,“ bætti Carlsen við.

Hver er heimsmeistarinn nýi

Nodirbek Abdusattorov er fæddur í september árið 2004 í Tashkent í Úsbekistan og því aðeins nýorðinn 17 ára gamall. Með sigrinum í Varsjá varð hann yngsti heimsmeistari í atskák í sögunni og skaust þar með rækilega fram í sviðsljósið. Þó að ferill hans hafi verið glæsilegur hingað til þá hefur hann ekki beint þurft að þola kastljós fjölmiðla en mun nú breytast.

Nodirbek Abdusattorov. Mynd/Lennart Ootes

Hann varð heimsmeistari átta ára og yngri árið 2012 og nafn hans skaust aðeins upp á yfirborðið þegar hann lagði tvo gamalreynda stórmeistara að velli aðeins 9 ára gamall en það þóttu talsverð tíðindi. Hann varð stórmeistari í skák aðeins 13 ára og eins mánaðar gamall og er sá sjötti yngsti í sögunni til þess að ná þeim árangri. Sá yngsti til að ná titilinum er Bandaríkjamaðurinn Abhimanyu Mishra sem var aðeins 12 ára og 4 mánaða þegar hann landaði titlinum fyrr á þessu ári.

Síðan þá hefur Abdusattorov klifið metorðastigann hægt og rólega en virðist þó eflast við hverja raun. Hann er í dag nr. 147 á heimslistanum í skák en greinilega býr mun meira í pilti.

Þess má geta að hann kom til Íslands árið 2018 og tók þátt í Reykjavík Open það ár.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna hlessa á nýrri prentarastillingu leikskólanna – Eykur á samviskubitið

Sólveig Anna hlessa á nýrri prentarastillingu leikskólanna – Eykur á samviskubitið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eydís allt annað en sátt við Ingu Rún: „Er konunni alvara?“

Eydís allt annað en sátt við Ingu Rún: „Er konunni alvara?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján ómyrkur í máli á fundi með borgarstjóra – Krafan er skýr

Kristján ómyrkur í máli á fundi með borgarstjóra – Krafan er skýr
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sjáðu Þór bjarga Hugin – Myndband

Sjáðu Þór bjarga Hugin – Myndband