Brotist var inn á veitingastaðinn Barion Bryggjuna í nótt. Sigmar Vilhjálmsson, einn eigandi staðarins, greinir frá þessu á Instagram-síðu sinni. Blessunarlega höfðu þó þjófarnir lítinn tíma til að athafna sig og náðu ekki að hafa mikil verðmæti með sér.
„Dagurinn í dag byrjaði í nótt. Securitas og lögreglan höfðu samband og hér var innbrot í nótt. Hér var farið í sjóðsvélarnar hjá okkur og skiptimyntin tekin. Það var fátt annað gert því að menn höfðu ekki mikinn tíma útaf öryggiskerfinu og annað. En það er ljóst að þegar rignir þá hellirignir eins og maðurinn sagði. En það er líka ljóst að það gerir enginn svona nema í einhverskonar neyð og ég vona bara að viðkomandi geti nýtt sér þetta klink sem fékkst hér. Enda er ekkert sérstaklega gáfulegt að vera að ræna veitingastað í Covid,“ segir Sigmar í færslunni og hlær dátt.
Hann segir það blasa við hægt sé að brjótast inn á vænlegri stöðum en það. „En það þarf ekki að vera svo gáfað fólk sem brýst inn,“ segir veitingamaðurinn.
Jólahátíðin hefur verið strembin hjá Sigmari og viðskiptafélögum hans úti á Granda en í gær greindi DV frá því að ekki hafi verið hægt að opna Barion Bryggjuna vegna þess að nær allir starfsmenn staðarins voru komnir í sóttkví. Sigmar greindi svo frá því á Instagram-síðu sinni að veitingastaðurinn myndi ekki opna að nýju fyrr en 2. janúar næstkomandi og yrði tíminn nýttur til þess að taka rækilega til hendinni á staðnum.