Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, skrifaði opið bréf til ríkisstjórnar Íslands sem birtist á Vísi í kvöld. Þar fer hann hörðum orðum um Persónuvernd vegna úrskurðar hennar á þá leið að Íslensk erfðagreining og Landspítalinn hefðu brotið Persónuverndarlög með því að draga blóð úr COVID-19 sjúklingum á Landspítalanum og mæla í því mótefni gegn veirunni. Kári fer fram á að Ríkisstjórnin lýsi vanþóknun sinni á ákvörðun Persónuverndar og heiti því að vernda fyrirtækið meðan það leitar réttar síns.
Kári ræðir aðgerðirnar sem Persónuvernd tók fyrir og segir þær hafa verið gerðar á miklum óvissutímum, og gerðar í þeim. tilgangi til að ná betri mynd af veirunni, til þess að hjálpa til í baráttunni við faraldurinn.
Í síðustu viku, á Þorláksmessu, fékk Kári vondar fréttir. Persónuvernd úrskurðaði að Íslensk erfðagreining og Landspítalinn hefðu brotið Persónuverndarlög. Kári segir að álit nefndarinnar byggi á þeirri skoðun að markmið blóðtakanna hafi ekki verið til að hlúa að sóttvörnum „heldur að stunda vísindarannsókn að gamni sínu.“
Í pistlinum svarar Kári fyrir sig í sex liðum, en hann segir til að mynda að málið falli utan valdsviðs Persónuverndar, og að brotin hafi verið stjórnsýslulög með því að gefa Íslenskri erfðagreiningu tækifæri á að svara fyrir eða verja sig. Liðirnir sex eru eftirfarandi:
Kári heldur því fram að Persónuvernd sé „út í mýri; sokkin upp undir höku.“ Hann gagnrýnir til að mynda Helgu Þórisdóttur forstjóra Persónuverndar, og segir óásættanlegt þegar forsvarsmaður eins stjórnvalds tjáir sig sem slíkur um umráðasvið annars stjórnvalds sem hann vill meina að sé Vísindasiðanefnd. Þá líkir hann sérfræðingum stofnunarinnar við her sem ætli sér landvinninga.
„Það er furðulegt fyrir okkur hjá Íslenskri erfðagreiningu sem í byrjun faraldursins unnum nótt sem nýtan dag við að aðstoða sóttvarnaryfirvöld, að una þeirri ákvörðun stjórnvalds, að með því hefðum við í rauninni verið að fremja glæp. Það sem gerir þessa ákvörðun skringilegri en svo að orðum taki er að hún byggir á þeirri skoðun Persónuverndar að það sem sóttvarnarlæknir segir að hafi verið gert í hans umboði til þess að styðja við sóttvarnir hafi verið gert í allt öðrum tilgangi og sé þess vegna brot á lögum. Þarna er Persónuvernd komin langt út fyrir valdsvið sitt og út í mýri; sokkin upp undir höku. Þegar forstjóri Persónuverndar fór í viðtal við RÚV að ræða ákvörðunina tjáði hún sig mjög ákveðið og gagnrýnið um það sem hún kallaði vísindasiðfræðina að baki mótefnamælingunum. Í fyrsta lagi var ekki um vísindarannsókn að ræða heldur þjónustu við sóttvarnarátak og í öðru lagi er það óásættanlegt þegar forsvarsmaður eins stjórnvalds tjáir sig sem slíkur um umráðasvið annars stjórnvalds sem í þessu tilfelli er Vísindasiðanefnd. Undir forystu núverandi forstjóra Persónuverndar er markaleysið orðið algjört og forstjórinn ætlar sér greinilega frekari landvinninga vegna þess að hann fór fram á fjárveitingu á fjárlögum til ráðningar tíu sérfræðinga í viðbót við núverandi her stofnunarinnar.“
Í lok pistils síns segir Kári að fer Íslensk erfðagreining fari fram á að Ríkisstjórnin lýsi vanþóknun sinni á þeirri ákvörðun Persónuverndar. Ástæðan er sú að hann telur það mögulegt að Persónuvernd leiti leiða til að ákvarða hvort fyrir tækið hafi brotið frekari lög.
„Málum er nú svo háttað að Íslensk erfðagreining er enn að vinna fyrir sóttvarnaryfirvöld við að raðgreina veiruna úr öllum þeim sem greinast í landinu og á landamærum. Við sitjum hins vegar uppi með þann möguleika að Persónuvernd finni í sínu flókna sálartetri leið til þess að ákvarða sem svo að við séum með því að brjóta lög. Þess vegna fer Íslensk erfðagreining fram á að Ríkisstjórnin lýsi vanþóknun sinni á þeirri ákvörðun Persónuverndar frá 23. nóvember 2021 að Íslensk erfðagreining hafi brotið lög með mótefnamælingunum og heiti því að vernda fyrirtækið meðan það leitar réttar síns fyrir dómstólum.“