Tæplega 800 einstaklingar greindust með ný smit COVID-19 í gær að sögn Kára Stefánssonar forstjóra íslenskrar erfðagreiningar en fyrirtæki hans fékk 782 jákvæð COVID sýni til raðgreiningar í morgun. Þetta staðfesti Kári í samtali við fréttastofu RÚV í morgun.
Bendir þetta til að hátt í 800 smit hafi greinst í gær. Opinberar tölur hafa þó ekki verið birtar á vef covid.is. Rétt er að taka fram að í síðustu viku greindi Kári frá því að hafa fengið 518 jákvæð sýni en þann dag voru opinberar tölur þó lægri, eða 494, þar af 51 smit á landamærum.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að um þrjú þúsund manns séu skráðir í PCR-sýnatöku við Suðurlandsbraut í dag og þúsund í hraðpróf. Ekki er búist við jafn langri röð og í gær, en Ragnheiður segir að röðina í gær megi skýra með veikindum hjá starfsmönnum heilsugæslunnar sem hafi valdið meiri hægagang en vanalega.
Uppfært 11.50 – 664 greindust smitaðir í gær hér innanlands samkvæmt opinberum tölum sem hafa nú verið birtar á covid.is. 8 greindust á landamærum, þar af þrír við fyrstu skimun, þrír við seinni og beðið er eftir mótefnamælingum í tveimur tilvikum.