Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og Sigrún Sigurðardóttir, dósent við HA og stjórnarkona í Geðhjálp, skrifuðu pistill sem birtist á Vísi í dag, en þar bentu þau á sláandi upplýsingar. Á meðan heimsfaraldurinn hefði riðið yfir hér á landi hefðu tæplega hundrað manns framið sjálfsvíg, og enn fleiri hundruð látið lífið vegna fjölþættra afleiðinga fíknar, en á sama tíma hefðu 37 manns hefðu látist vegna sjálfrar veirunnar.
Heimir Hannesson, blaðamaður DV birti um helgina pistil er varðaði þessi mál, og gagnrýndi þar forgangsröðun stjórnvalda harðlega. Hægt er að lesa pistil hans hér.
Grímur og Sigrún minnast ekki að upplýsingafunda, minnisblaða eða markvissra mótvægisaðgerða vegna umræddra dauðsfalla, og segja samfélagið ekki hafa verið stöðvað til þess að fyrirbyggja þau.
„Covid-faraldurinn er vissulega erfiður viðureignar og áskorun fyrir heilbrigðiskerfið en 30 af þeim 37 sem hafa látist af völdum Covid voru eldri en 70 ára, 20 eldri en 80 ára og þrír yngri en 60 ára. Til samanburðar voru 35 af þeim 47 sem tóku eigið líf árið 2020 yngri en 60 ára. 17 voru yngri en 29 ára og þrír yngri en 18 ára.
Ótímabær dauðsföll eru alltaf sorgleg og valda harmi fyrir marga en tilgangsleysi þess að börn og ungt fólk deyi úr geðrænum áskorunum er algjört og í raun óásættanlegt. Þegar hlutdeild sjálfsvíga í andlátum yngri en 30 ára er skoðuð sést það svart á hvítu hversu alvarleg þróunin er.“
Í pistlinum benda þau Grímur og Sigrún á að samkvæmt tölum landlæknisembættisins meti fleiri geðheilsu sína slæma og lélega en fyrir 22 mánuðum. Þau segja að færa megi rök fyrir því að það kunni að „litast af þeim sóttvarnaraðgerðum sem gripið hefur verið til og stöðugs upplýsingaflæðis af fjölda smita, fjölda andláta, fjölda afbrigða o.s.frv.“
Grímur og Sigrún hvetja stjórnvöld til þess að setja geðheilbrigðismál í forgang. Til dæmis með því að „útfæra fjárlög þannig að þau eigi að tryggja góða viðspyrnu, og skýra framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum.“