Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er með COVID-19. Frá þessu greindi hann á Facebook-síðu sinni rétt í þessu.
Hann segist hafa farið í PCR-próf vegna ríkisstjórnarfundar sem fram fer í fyrramálið, og fengið jákvætt úr því. Hann tekur fram að hann viti ekki hvernig hann smitaðist.
Bjarni er því á leið í tíu daga einangrun, en hann segist vera einkennalaus. Því ætlar hann að sinna verkefnum heima, en ætlar líka að taka því rólega og minnist sérstaklega á að hann þurfi að sinna bókalestri.
Þá hvetur hann fólk til að sýna varkárni vegna faraldursins, og segir að samstaðan hafi verið lykilatriði í baráttunni við veiruna.