Kraftaverkamaðurinn Guðmundur Felix Grétarsson deildi skemmtilegu myndbandi með fylgjendum sínum í gær þar sem greina mátti enn eitt framfaraskrefið hjá kappanum. Í myndbandinu sést Guðmundur Felix gæða sér á súpu sem er jólahefð á hans heimili. „Fyrir tveimur mánuðum setti ég mér markmið. Að ég ætlaði að gæða mér á jólasúpunni hjálparlaust. Hafðu þetta jólasúpa,“ skrifar Guðmundur Felix í færslu með myndbandinu.
Sem kunnugt er gekkst Guðmundur Felix í ársbyrjun undir tvöfalda ágræðslu handleggja við axlir, fyrstur manna í heiminum. Aðgerðin fór fram í Frakklandi þar sem hann hefur verið búsettur undanfarin átta ár og beðið eftir ágræðslunni. Síðan þá hefur þjóðin fylgst agndofa með ótrúlegum framförum hans.