18 gestir voru inni á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur með drykk um hönd klukkan 23:30 í gærkvöldi, en sóttvarnarreglur segja að gestir þurfi að vera farnir út fyrir klukkan 22. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Þá voru tveir einstaklingar vistaðir í fangageymslu með stuttu millibili fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu en annar þeirra er einnig grunaður um brot á sóttvarnarlögum sem og ofbeldi gegn opinberum starfsmanni.
Rétt fyrir klukkan sex í gærkvöldi lenti bifreið aftan á annarri bifreið og reyndi tjónvaldur að koma sér burt. Tjónþoli elti bílinn og sá hvar ökumaðurinn og farþegar fóru inn í hús. Þegar lögreglan kom á vettvang var fólkið horfið en bílinn var ótryggður og skráningarmerkin höfðu verið fjarlægð. Málið er í rannsókn.