Þríeykið var aftur mætt á vaktina á upplýsingafundi almannavarna rétt fyrir hádegi í dag. Þar fóru þau yfir stöðuna í kórónuveiru faraldrinum hér á Íslandi og framtíðarhorfur. Fyrir þá sem þurfa upprifjun þá samanstendur þríeykið af Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, Ölmu Möller landlækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni.
Fullyrðing veitingamannsins Sigmars Vilhjálmssonar, sem hann deildi á Twitter í gær, var borin undir þremenningana á fundinum, en Sigmar hélt því fram að engin lagaheimild væri fyrir hendi sem geri það heimilt að skipa fólki að sæta einangrun eða sóttkví og því gætu þeir sem hafi verið skipað í slíkt kært ákvörðunina, fengið henni hnekkt og sloppið fyrr en ella.
Þríeykið sögðu engan fót fyrir þessari fullyrðingu. Lagaheimildin væri vissulega til og sé það staðfest af fjölmörgum dómafordæmum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði: „Nei þetta stenst ekki skoðun. Það er svo sannarlega lagaheimild fyrir því og við höfum þurft að láta á það reyna meira að segja og þetta er bæði skilgreint í sóttvarnarlögunum og svo í reglugerðum. Ég tel að þetta sé ekki rétt og þarna sé verið að hvetja fólk til að fara af stað með einhverjar málsóknir – sem fólk getur gert, fólk getur kært úrskurði um einangrun og sóttkví eða vísað því áfram en þetta að mínumati stenst ekki.“
„Það eru bara komin mörg fordæmi fyrir því nú þegar,“ bætti Víðir þá við.
Ef þú er send/ur eða skipuð/aður í sóttkví eða einangrun, þà getur þú kært niðurstöðuna og þér verður sleppt út. Það er ekki lagaleg heimild fyrir þessum aðgerðum. Þetta vissi ég ekki fyrr en í dag og ákvað að deila því með ykkur. Ekkert að þakka, þetta samtal kostaði bara 24K
— Simmi Vil (@simmivil) December 22, 2021