Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að nýgengi smita hafi hækkað hjá öllum hópum en sé þó áberandi lægst í hópi bólusettra fullorðinna og hjá þeim sem hafa fengið örvunarskammt.
14 daga nýgengi á hverja 100.000 íbúa er 976,1 hjá óbólusettum fullorðnum en hjá fullbólusettum er það 675,3. Hjá þeim sem hafa fengið örvunarskammt er nýgengið aðeins 147,3.
90% landsmanna, 12 ára og eldri, hafa lokið bólusetningu eða rúmlega 283.000 manns. Rúmlega 154.000 hafa fengið örvunarskammt.
Þegar sjúkrahúsinnlagnir eru skoðaðar er munurinn enn meira afgerandi. Nýgengni óbólusettra er 32 á hverja 100.000 á síðustu tveimur vikum en hjá fullbólusettum er það aðeins 4,3%. Það er því rúmlega sjöfaldur munur á þessum hópum. Hjá þeim sem hafa fengið örvunarskammt er nýgengið ekkert og hefur verið þannig síðan 14. desember. Enn er ekki komin almennileg reynsla á sjúkrahúsinnlagnir hér á landi vegna Ómíkronafbrigðisins en Runólfur Pálsson, yfirlæknir COVID-göngudeildar, sagði fyrr í vikunni að áhrifin komi í ljós á næstu viku eða svo.
14 daga nýgengi faraldursins er nú 655,3 á hverja 100.000 íbúa og hefur aldrei verið hærra. Í fyrstu bylgju faraldursins fór nýgengið hæst í 267,2 í apríl 2020. Í annarri bylgju fór það hæst í 291,8 í október 2020. Í þriðju bylgjunni fór það hæst í 433,6 í ágúst á þessu ári.