Morgunblaðið skýrir frá þessu. Blaðið hefur eftir Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni, að innlögnum geti fjölgað hratt á næstu dögum því yfirleitt líði ein til tvær vikur þar til innlagnir endurspegli smittíðnina i samfélaginu.
Haft er eftir Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, settum forstjóra Landspítalans, að til skoðunar sé að aðrar heilbrigðisstofnanir taki við sjúklingum frá spítalanum. „Staðan á spítalanum og faraldrinum er ískyggileg. Við erum að reyna að manna okkar einingar eins vel og við getum. Stóra málið hjá okkur er að við erum með töluvert af fólki í einangrun og smitgát út af sýkingum,“ sagði hún og bætti við að miðað við spá verði 4.500 manns undir eftirliti göngudeildarinnar um áramótin.
Hún sagði að staðan á spítalanum sé einnig þung vegna almennra veikinda, meðal annars vegna flensunnar og flensulíkra öndunarfæraeinkenna.