Tæplega 500 ný smit COVID-19 greindust hér á landi í gær, en um er að ræða langflest smit sem greinst hafa á einum degi hér frá upphafi faraldursins. RÚV greinir frá þessu, en opinberar tölur hafa ekki verið birtar á covid.is.
Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar sagði í samtali við fréttastofu RÚV að fyrirtæki hans hafi fengið 518 jákvæð sýni til raðgreiningar í dag, en öll jákvæð sýni séu nú send til þeirra meðal annars til að greina hvaða afbrigði veirunnar um ræðir.
Kári sagði að þessar tölur ættu ekki að koma á óvart miðað við stöðuna í dag þar sem veiran sé í veldisvexti og við því að búast smitum fjölgi enn frekar þrátt fyrir hertar samkomutakmarkanir sem tóku gildi á miðnætti.
Kári gagnrýnir jafnframt nýjan heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, fyrir að hafa fallist á að veita veitingamönnum og viðburðarhöldurum undanþágu frá hertu reglunum í dag.
Kári spáði því fyrr í vikunni að við færum að sjá upp í 600 smit á dag þrátt fyrir hertar aðgerðir.
Uppfært: 12:14 – Formlegar tölur um fjöldasmita hafa nú verið birtar og voru smit færri en greint er frá hér að ofan. 443 smit greindust innanlands en 51 á landamærum – alls 494 smit sem rauf ekki 500-múrinn líkt og upphaflega sagði í fyrirsögn.