fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

Vilhjálmur ósáttur með umfjöllun RÚV um látinn ættingja – „Ég kann ekki við svona dagskrárgerð“

Jón Þór Stefánsson
Miðvikudaginn 22. desember 2021 21:30

Vilhjálmur Bjarnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á jóladag klukkan 16:05 mun útvarpsþátturinn Hver var Sonja de Zorrilla? fara í loftið á Rás 1. Um verður að ræða fyrsta þátt af fjórum, sem fjalla munu um Sonju Wendel Benjamínsson de Zorilla, íslenska konu sem fæddist árið 1916 og átti stórmerkilega ævi. Þættirnir verða í umsjón Sæunnar Gísladóttur og Katrínar Lilju Jónsdóttur.

Umfjöllun um líf Sonju virðist fara fyrir brjóstið á sumum, en Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir óánægju sinni í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld. Sjálfur var hann frændi Sonju, en hann segist ekki kunna við dagskrárgerð RÚV þessi jólin.

Ástæðan fyrir óánægju Vilhjálms virðist vera sú að Sonja átti ekki afkomendur, og því ekki hægt að ráðfæra sig við þá þegar umfjöllun sem þessi fer í loftið. Hann skrifar:

„Ég velti fyrir mér hvort þess megi vænta að Ríkisútvarpið muni á jólum framtíðarinnar fjalla um einkamál látins fólks.

Mér finnst með ólíkindum að RÚV skuli leyfa sér að fjalla um látna konu, sem á ekki afkomendur, í jóladagskrá.

Sonja Wendel Benjamínsson de Zorilla var nákomin frænka mín.

Ég kann ekki við svona dagskrárgerð.“

Miklar umræður hafa skapast við færslu Vilhjálms. Til að mynda segist Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og einn reyndasti ævisagnaritari landsins, ekki skilja hvers vegna ekki megi fjalla um líf Sonju sé það gert smekklega.

„Ég hef nú skrifað allmargar ævisögur látins fólks. Og margir aðrir. Ævi látins fólks hefur líka verið sviðsett (t.d. Ellýar Vilhjálms og Ástu Sigurðardóttur). Skil ekki hvers vegna útvarpið má ekki fjalla um lífshlaup þeirra liðnu ef það er gert á smekklegan hátt.“

Jón Viðar Jónsson, einn þekktasti menningargagnrýnandi landsins leggur einnig orð í belg. Hann segir afkomendur ekki eiga neinn „einokunarrétt“ á umfjöllun um látið fólk. Í því samhengi minnist hann á ævisögu Einars Benediktssonar, sem áðurnefndur Guðjón skrifaði, og viðbrögðin sem hún fékk.

„Afkomendur eiga engan einokunarrétt á umfjöllun um forfeður þeirra, sé þar um að ræða fólk sem hefur átt sér sögulegt lífshlaup á einhvern hátt. En viðkvæmni fólks hér í fámenninu fer stundum út yfir öll mörk, sbr. viðbrögð sumra afkomenda Einars Ben við ævisögu Guðjón Friðriksson um hann.“

Fjölmiðlamaðurinn og setjarinn Haukur Már Haraldsson minnist á að skrifuð hafi verið ævisaga Sonju. Hún hét Sonja: Líf og leyndardómar Sonju W. Benjamínsson de Zorrilla, og það var ritstjórinn Reynir Traustason sem skrifaði. Haukur spyr því þessarar spurningar:

„Ævisaga þessarar konu hefur verið skrifuð og fjallað um líf hennar víð í fjölmiðlum; hvers vegna finnst þér rangt að fjalla um hana nú?“

Vilhjálmur svaraði „Ég get sagt þér ýmislegt um þessa ævisögu, en er þetta jólaefni?“ og Haukur spurði því aftur: „Er þetta ekki einfaldlega forvitnilegt efni, án tillits til árstíðar?“

Prófessorinn Þórólfur Matthíasson tengdi umræðuna við sið ástralskra frumbyggja sem minnast ekki látinna einstaklinga með nafni.

„Meðal frumbyggja Ástralíu tíðkast sú venja að nefna ekki látna með nafni. Litið er svo á að það kunni að valda anda hins framliðna truflun. Líklega er reglan bundin við sorgartímabilið. Ennfremur er það svo að í upphafi margra Ástralskra kvikmynda er tekið fram, fyrir íbúa Northern Territory og Torres Strait Islands að það geti gerst að myndir af framliðnu fólki birtist á skjánum eða tjaldinu. Þetta mun gert til að fólk af ættum frumbyggja hafi val um hvort þeir vilji horfa á myndina eða ekki að þessum upplýsingum gefnum. Þessi siður var mér ókunnur uns ég kom til Ástralíu. Það myndi lítið verða úr mannkynssögunni ef reglu frumbyggjanna yrði almennt beitt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Samfylkingin gagnrýnir auglýsingu á vef Hafnarfjarðar harkalega – Hleypi illu blóði í viðræður

Samfylkingin gagnrýnir auglýsingu á vef Hafnarfjarðar harkalega – Hleypi illu blóði í viðræður
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra
Fréttir
Í gær

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur

Gjaldþrota fyrirtæki Quang Le skipað að endurgreiða lyklagjald vegna leigusamnings sem aldrei var efndur
Fréttir
Í gær

Samherji leggur listamann í bresku dómsmáli – Villti á sér heimildir og baðst afsökunar

Samherji leggur listamann í bresku dómsmáli – Villti á sér heimildir og baðst afsökunar