Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá máli eigenda Brúneggja á hendur Ríkisútvarpinu (RÚV) og Matvælastofnunar (MAST) vegna umfjöllunra Kastljóss um málefni eggjaframleiðslunnar á árinu 2016, en eigendur kröfðust þess að dómari viðurkenndi að RÚV og MAST bæru skaðabótaskyldu vegna tekjutapsins sem Brúnegg urðu fyrir í kjölfar þáttarins.
Athygli vakti árið 2016 þegar Kastljós á RÚV varpaði ljósi á að eggjaframleiðandinn Brúnegg hafi um árabil blekkt neytendur með því að selja egg frá meintum hamingjusömum hænum. Kastljós sýndi að hænurnar væru alls ekki hamingjusamar heldur höfðu búið við verulega slæman kost.
Brúnegg höfðu verðlagt egg sín hærra á þeim grundvelli að um vistvæna framleiðslu væri að ræða og þar með blekkt neytendur sem vissu ekki að fyrirtækið hafði þverbrotið reglugerðir um dýravernd og ekki brugðist við ítrekuðum afskiptum Matvælastofnunar af starfseminni, en á sama tíma hagnast mikið á því að selja eggin á hærra verði.
Í kjölfar umfjöllunar Kastljóss hættu allar stærstu verslunarkeðjur landsins að selja Brúnegg og hrundu tekjur fyrirtækisins svo hratt að fyrirtækið fór í þrot snemma árið 2017, aðeins fáeinum mánuðum eftir umfjöllun Kastljóss.
Bali ehf. og Geysir fjárfestingafélag ehf. áttu hvort um sig 50 prósent í Brúneggjum og fengu þrotabú Brúneggja til að framselja sér skaðabótakröfu á hendur RÚV og MAST, stefndu þeim fyrir dóm og kröfðust viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna fjárhagstjóns Brúneggja í kjölfar umfjöllunarinnar.
Eigendur héldu því fram að umfjöllun Kastljóss hafi verið „röng, villandi, skaðleg og ósanngjörn í garð Brúneggja ehf., og ólögmæt og saknæm. Auk þess hafi umfjöllunin byggst á ólögmætri og saknæmri þátttöku Matvælastofnunar (MAST), einkum við afhendingu gagna varðandi Brúnegg til Ríkisútvarpsins, með aðstoð við undirbúning sjónvarpsþáttarins og með beinni þátttöku starfsmanna MAST í þættinum fyrir hönd stofnunarinnar.“
Því var haldið fram að umfjöllun Kastljóss hafi vegið gróflega að æru og heiðri Brúneggja sem og eigendum, fyrirsvarsmönnum og starfsmönnum fyrirtækisins og að fyrir umfjöllunina hafi fyrirtækið verið í blómlegum rekstri, hagnaður hafi verið mikill og allar líkur á því að reksturinn yrði áfram í frábærum málum – en síðan kom Kastljós og eyðilagði allt.
RÚV og MAST kröfðust þess að málinu yrði vísað frá dómi. Það væri illa rökstutt, óskýrt og stæðist ekki kröfur sem gerðar eru í lögum til slíkra mála.
Dómari rakti að eigendurnir, Bali ehf. og Geysir fjárfestingafélag ehf. hafi ekki verið nefndir á nafn í umfjöllun Kastljóss. Eins hafi þeir, þrátt fyrir að hafa verið hluthafar í Brúneggjum, ekki fært sönnur á meint tjón sitt vegna umfjöllunarinnar. Tók dómari undir að málið væri óskýrt og stæðist ekki kröfur sem gerðar eru til slíkra viðurkenningarmála. Því var málinu vísað frá dómi og eigendur Brúneggja þurfa að greiða RÚV og MAST málskostnað.