Baðkar spilaði stórt hlutverk í máli vinnuveitanda sem sóttist eftir milljónum í skaðabætur frá fyrrum starfsmanni eftir meinta umfangsmikla svikastarfsemi hans. Dómari féllst á hluta krafna vinnuveitandans og þarf nú starfsmaðurinn að greiða tæpar fjórar milljónir í bætur auk 800 þúsund króna málskostnað. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Hvorki vinnuveitandinn né starfsmaður eru nafngreind í dóminum sem er birtur á vefsíðu héraðsdóms en um er að ræða verslun sem meðal annars selur baðkör. Starfaði þar karlmaður við sölu en honum var vikið úr starfi í október árið 2020 vegna alvarlegra brota í starfi.
Áður hafði hann verið vel metinn í starfi og notið fríðinda á borð við að geta fengið lán frá vinnuveitanda, fyrirframgreidd laun og kostur á að greiða niður skuld með því að taka að sér þrif.
Umræddur starfsmaður hafði meðal annars stundað það að bjóða kunningjum sínum að kaupa vörur í versluninni á starfsmannaafslætti – athæfi sem var öllum starfsmönnum heimill. Maðurinn fór þó ekki eftir viðurkenndu verklagi heldur fékk kunningjum til að greiða fyrir vörurnar inn á sinn persónulega reikning og eyddi svo gögnum um söluna úr kerfum verslunarinnar.
Þar með stakk hann söluandvirðinu í eigin vasa á meðan verslunin varð af vörum án þess að fá nokkurt endurgjald fyrir þær, en þessi háttsemi kom upp á yfirborðið þegar einn viðskiptavina mannsins reyndi að skila vöru sem hann hafði keypt með ofangreindum hætti.
Stórt baðkar að gerðinni Blue Moon spilaði stórt hlutverk í málinu. Baðkarið var á sölu hjá versluninni á 1,4 milljón krónur, en sérstakt sýningareintak hafði þó verið boðið til sölu á miklum afslætti en það seldist þó ekki og hafði verið komið fyrir í vörugeymslu þar sem það hafði svo staðið í langan tíma.
Starfsmaðurinn tók svo baðkarið ásamt fylgihlutum úr vöruhúsi verslunarinnar án þess að greiða fyrir það. Fyrir dómi hélt starfsmaðurinn fram að hann hafi samið við einn eiganda fyrirtækisins um að fá að taka baðkarið og greiða fyrir það á bilinu 100-200 þúsund krónur, en hann hafi þó aldrei verið rukkaður um þann pening.
Umræddur eigandi kannaðist þó ekki við það samtal en kannaðist við að líklega hafi umrætt sýningareintak verið auglýst á 300 þúsund krónur á útsölu.
Dómari benti á að þrátt fyrir ofangreint hafi vinnuveitandinn í heilt ár vitað að starfsmaðurinn hafi farið heim með baðkarið en ekkert gert í því. Þar með hafi verið veitt svokallað eftirfarandi samþykki fyrir töku þess. Ekki væri heldur hægt að krefjast fulls verðs fyrir þetta sýningareintak þar sem það hafi ekki náð að seljast á 300 þúsund krónur. Dómari miðaði því við að starfsmaðurinn ætti að greiða 243 þús í bætur fyrir baðkarið.
Í málinu kom einnig fram að vinnuveitandinn hefur kært manninn til lögreglu enda fundið um 33 tilvik þar sem maðurinn hafi útbúið reikninga í sínu nafni, með starfsmannaafslætti, en látið leggja fjárhæðina inn á sig sjálfan og reynt að eyða gögnum um söluna úr kerfum. Að sögn vinnuveitanda er um 20 milljónir sem maðurinn hafi haft af versluninni með þessu athæfi.
Dómari taldi skýringar mannsins – um að hann hafi hreinlega gleymt – ósennilegar þar sem um ítrekuð tilvik væri að ræða. Fyrst þegar vinnuveitandi hafi reynt að kalla manninn á fund til að ræða um þessi mál hafi hann ekki mætt heldur sent eiginkonu sína í staðinn. Sú bauðst til að skila stóra baðkarinu en neitaði að borga það og vildi ekki tjá sig um meint brot manns hennar.
Maðurinn freistaði þess ennfremur fyrir dómi að gera gagnkröfu á hendur vinnuveitanda sínum og sagði þá skulda honum laun, meðal annars vegna ólögmætrar uppsagnar og þar með launa í uppsagnarfrest. Dómari benti á að það væri engin þörf að áminna starfsmenn sem hafa orðið uppvísir af alvarlegum brotum í starfi.
Að endingu féllst dómari á hluta krafna vinnuveitandans og dæmdi manninn til að greiða tæpar fjórar milljónir í skaðabætur. Ekki var hægt að fara nánar út í meint brot mannsins geng hegningarlögum þar sem um einkamál var að ræða. 50 prósent eignarhlutur mannsins í fasteign er nú kyrrsettur til að tryggja kröfu vinnuveitandans, en héraðsdómur staðfesti úrskurð sýslumanns um kyrrsetninguna í október.