Hertar sóttvarnaraðgerðir taka gildi á miðnætti annað kvöld þar sem samkomutakmarkanir miðast við að hámarki 20 manns megi koma saman, tveggja metra reglan tekur við af eins meters reglunni og hægt verður að halda stærri viðburði fyrir allt að 200 manns í stað 500 áður að því gefnu að fólk gangist áður undir hraðpróf. Nýju reglurnar gilda að óbreyttu í þrjár vikur.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, fóru yfir nýjar reglur og svöruðu spurningum blaðamanna eftir ríkisstjórnarfund nú í hádeginu. Að mestu leyti er farið eftir tillögum sóttvarnalæknis. Stefnt er að því að skólahald hefjist með eðilegum hætti eftir jólafrí.
„Þetta eru ekki skemmtileg tíðindi að færa þjóðinni í aðdraganda jólanna,“ sagði Katrín.
Ekki var eining innan ríkisstjórnarinnar um reglurnar.