Fyrr í dag deildi Guðmundur Felix myndum af sér á Facebook þar sem hann skrifaði „Ready to dine with the president,“ eða „Tilbúinn í kvöldverð með forsetanum.“ Á myndunum má til að mynda sjá eiginkonu Guðmundar Felix, Sylwiu Gretarsson Nowakowska, móður hans, Guðlaugu Ingvadóttur, og eldri bróður hans, Valgeir.
Sem kunnugt er gekkst Guðmundur Felix í ársbyrjun undir tvöfalda ágræðslu handleggja við axlir, fyrstur manna í heiminum. Aðgerðin fór fram í Frakklandi þar sem hann hefur verið búsettur undanfarin átta ár og beðið eftir ágræðslunni.
Guðmundur Felix greindi frá því á Facebook á sínum tíma að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefði sent lækna- og hjúkrunarteyminu hans í Lyon heillaóskir eftir vel heppnaða aðgerð enda um heimsviðburð að ræða.
Nýlega kom út ævisaga Guðmundar Felix, 11.000 volt, og þar kemur fram að forsetinn hringdi í Guðmund Felix skömmu eftir aðgerðina og hefur reglulega verið í sambandi við hann. Þá átti Guðmundur Felix inni heimboð á Bessastaði þegar hann myndi koma til landsins og í dag var loksins komið að því.