Jared Bibler, fyrrverandi rannsakandi hjá Fjármálaeftirlitinu, var gestur í bókaspjalli hjá Íslandsdeild Transparency International á dögunum þar sem hann fjallaði um bókina sína sem hann skrifaði um íslenska bankahrunið, Iceland’s Secret: The Untold Story of the World’s Biggest Con.
Bibler rifjar upp að allir þrír bankarnir – Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing – voru einkavæddir á árunum 1998-2003. Kaupþing varð stærsti bankinn og óx um 500% á þremur árum. Þetta var á tímum þegar fasteignabóla var á markaði, Range Rover urðu sífellt algengari á götum Reykjavíkur og einkaþotur flugu yfir. Allir þrír bankarnir féllu haustið 2008 og starfaði Bibler um tíma við að rannsaka bankahrunið.
Bókin er aðeins aðgengileg á ensku. Bibler vonast eftir að hún eigi eftir að koma út á íslensku líka en hann er svartsýnn.
„Ég talaði við tvo útgefendur á Íslandi. Ég byrjaði að tala við útgefanda í febrúar og mér sýnist núna að það sé enginn áhugi á Íslandi, því miður. Ég skil það ekki samt,“ segir hann.
Hægt er að nálgast bókina í verslunum Pennans Eymundsson, í erlendum netverslunum á borð við Amazon og einnig sem hljóðbók.
Transparency International eru félagasamtök fólks sem vill berjast gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins.
Hér má hlusta á viðtalið við Bibler í heild sinni. Það er Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri samtakanna, sem tekur viðtalið.