„Við fordæmum því að ferlið sem heimilar að sækja barnið með aðkomu lögreglu hafi yfir höfuð verið sett af stað; að draga skuli barn og móður í gegnum þetta ferli þar sem áætluð lokaútkoma er ekkert annað en handtaka ungs barns,“ segir í erindi sem stjórn Líf án ofbeldis hefur sent frá sér.
Erindið er sent á Sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu, dómsmálaráðuneytið, innanríkisráðherra, þingmenn Alþingis, Ríkislögreglustjóra, Umboðsmann Alþingis og Umboðsmann barna.
Tilefnið er að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið til meðferðar beiðni um aðfararaðgerð til að knýja fram úrskurð um lögheimili barns hjá föður gegn vilja barnsins. Samtökin Líf án ofbeldis vöktu nýlega athygli á málinu „þar sem rökstuddur grunur er um langvarandi andlegt og líkamlegt ofbeldi föðurins gagnvart börnunum og móður þeirra. Samtökin fordæma að sýslumaður beiti þvingunaraðgerðum gagnvart öðru barninu en bæði börnin hafa lýst vilja sínum ítrekað, óttast föður sinn og hafa hafnað umgengni við hann,“ segir í erindinu.
Þann 19. nóvember síðastliðinn féll dómur í Landsrétti sem þar sem úrskurðað var um sameiginlega forsjá tveggja barna sem hafa ítrekað hafnað umgengni við föður og lýst yfir miklum ótta sökum ofbeldishegðunar föðurins. „Héraðsdómur hafði áður falið móður forsjá beggja barnanna sem bæði hafa lýst þeim vilja sínum að búa hjá móður. Landsréttur úrskurðar engu að síður, gegn vilja annars barnsins, að það skuli slíta systkini í sundur og yngsta barnið, 9 ára, er dæmt til að búa hjá föður sem það hefur ekki viljað umgangast í tvö ár. Barnið sem er langveikt hefur alfarið verið í umsjá móður en ekki er kveðið á um umgengni barnsins við hana í dómsúrskurðinum.“
Í erindinu kemur ennfremur fram:
„Í málinu lágu meðal annars fyrir skýrslur frá læknum og geðlæknum sem lýsa alvarlegri sjálfsvígstilraun eldra systkinis sem rakið er til andlegs- og líkamlegs ofbeldis föðurins sem barnið þurfti að búa við í 12 ár. Í málinu lá einnig fyrir sáttavottorð gefið út af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þann 19. október 2021 vegna dagsektarmáls sem faðirinn hóf. Þá var rætt við barnið sem um ræðir og vilji þess kom skýrt fram – ótti við að hitta föður og höfnun á allri umgengni. Barnið dvelur hjá móður og er of hrætt til þess a fara í skóla af ótta við að faðir taki það þar. Móðirin sem sjálf hafði greint frá andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi barnsföðurins í Bjarkarhlíð, eins og fram kemur í málinu, virðir vilja barnsins og sinnir lögbundinni skyldu sinni með því að setja ekki barnið í aðstæður þar sem hætta er á áframhaldandi ofbeldi.
Þann 30. nóvember, leggur faðir inn kröfu um aðför að barninu hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem samdægurs boðar móður á sáttafund með föður þann 15. desember. Móðir hafnar boðinu vegna mánaðarlegrar lyfjagjafar barnsins á Landspítala þennan sama dag. Sáttafulltrúi Sýslumanns sendir þá tölvupóst á móður og segist samt vilja eiga símtal við hana þennan dag. Móðirin gerir aftur grein fyrir aðstæðum og svarar í samræmi við það að sáttafundur í síma henti ekki. Sáttamaður heimtar þá símtal við móður næsta dag. Móðirin biðst undan því og segist þurfa að ráðfæra sig fyrst við sinn lögmann, einnig óskar hún þess að lögmaðurinn sitji með á sáttafundi til að gæta að hennar réttindum og skyldum.
Sáttafulltrúinn svarar því ekki, en sendir formlegt fundarboð um fund daginn eftir. Móðir ítrekar fyrra svar sitt um að þurfa að ráðfæra sig við sinn lögmann fyrir fundinn. Þá hringir sáttafulltrúinn samstundis í móðurina, í umboði sýslumanns og ríkisvaldsins, og spyr ítrekað hvort hún geri sér ekki grein fyrir í hvaða stöðu hún er og að faðir muni fara með aðfararmálið fyrir dóm. Móðirin tjáir manninum að hún geti ekki rætt þessi mál í síma vegna þess að umrætt barn sé viðstatt og þurfi hennar umönnun vegna veikinda eftir lyfjagjöf. Eins og fram kemur í gögnum málsins er barnið með miklar aukaverkanir eftir þessar lyfjagjafir og þarf mikinn stuðning, sem móðirin hefur alfarið sinnt ein án aðkomu föður. Sáttamaðurinn segir þá móður einfaldlega geta fært sig í annað herbergi og að hún sé bara að tefja málið. Ef hún mæti ekki á fundinn næsta dag, þann 17. desember, muni hann gefa út vottorð sýslumanns um að sættir hafi ekki náðst. Móðirin skýrir þá að tiltekinn tími henti ekki þar sem hún þurfi að aka börnum á jólaviðburð á sama tíma. Þá klikkir sáttamaðurinn út með því að hún eigi enga heimtingu á að vera með börnunum á þessum viðburði því faðirinn eigi rétt á umgengninni. Að samtalinu loknu sendir sáttafulltrúinn tölvupóst, vísar í símtal og móðir er sögð hafa samþykkt fundartímann daginn eftir. Ef hún muni ekki mæta ætli sáttamaðurinn gefa út vottorðið um árangurslausa sáttatilraun.“
Sáttafundur í málinu fór fram í gær, að því er segir í erindi Lífs án ofbeldis. Þar segir að móðir hafi ítrekað óskir um að tekið væri tillit til vilja og líðan barnsins, og að rætt verði við það aftur, en sáttafulltrúi hafi hafnað því að beiðni föður.
Sáttafundurinn fór fram rétt í þessum rituðu orðum. Móðir ítrekaði óskir um að tekið væri tillit til vilja og líðan barnsins, og óskaði þess að rætt væri við barnið aftur. Sáttafulltrúi hafnar því að beiðni föður.
„Við teljum annað ótækt en að dómari hafni beiðni um aðfararaðgerð ef til kemur, í samræmi við fyrirmæli laga um meðferð slíkra mála. Við krefjumst þess að þetta ferli verði stöðvað tafarlaust og að móðir og börn fái þá vernd af hálfu stjórnvalda sem þeim ber,“ segir í erindinu sem má lesa hér í heild sinni í meðfylgjandi skjali.