Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms í skaðabótamáli konu gegn Endurvinnslunni og Vátryggingafélagi Íslands. Konan slasaðist alvarlega er hún festist í sjálfvirkri hurð í Endurvinnslunni að Dalvegi í Kópavogi árið 2015.
Konan, sem þá var 73 ára gömul, átti þá leið í móttökustöð Endurvinnslunnar að Dalvegi 28 í Kópavogi. Gengið er inn í húsið um dyr sem lokað er með rafdrifinni hurð sem opnast og lokast sjálfvirkt. Þegar konan var á leið út úr húsinu lokaðist rafmagnshurðin á hana svo að hún missti jafnvægið, féll í gólfið og slasaðist. Konan telur að hurðin hafi verið vanstillt eða biluð og öryggisbúnaður hennar hafi ekki virkað rétt.
Samkvæmt vottorði læknis voru áverkar konunnar eftir slysið tognun og ofreynsla á mjöðm, mar á ótilgreindum hluta fótleggjar, tognun og ofreynsla á ökkla og mar á ótilgreindum hlutum fóta.
Í læknisvottorðinu segir:
„Hér er þannig um 73 ára gamla konu sem verður fyrir því að sjálflokandi hurð lendir á henni og hún dettur illa og fær mikið mar einkum á hægra mjaðmarsvæði niðurfótinn og ökkla og eins á vinstri ökklann. Lagðist meira og minna í rúmið í margar vikur, komst þannig ekkert út um jólin og ekki fyrr en 10. febrúar að hún fer út úr húsi og þá til mín og hefur lítið farið síðan annað en það allra nauðsynlegasta.“
Konan tilkynnti um tjón sitt til VÍS í janúar 2016 og krafðist þess að tjónið yrði bætt úr ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar Endurvinnslunnar. Í kjölfar bréfaskrifta fór það svo að VÍS hafnaði bótaskyldu fyrir hönd Endurvinnslunnar í febrúar 2017.
Í málatilbúnaði konunnar er staðhæft að rafmagnshurðin hafi lokast á hana skyndilega án þess hún fengi rönd við reist og fellt hana svo hún slasaðist. Röng stilling hafi valdið því að hurðin lokaðist þrátt fyrir það eðlilega viðnám að einhver stóð fyrir henni.
Konan segist hafa orðið fyrir verulegum miska vegna slyssins. Hún hafi verið rúmliggjandi í rúma þrjá mánuði og lést um 14 kg á tímabilinu. Hún hafi einangrast félagslega og þetta hafi tekið mjög á sálarlíf hennar. Hún hafi enn fremur orðið fyrir varanlegu heilsutjóni og sé nú bundin hjólastól.
Ágreiningur var milli málsaðila um hvort hurðin hafi verið útbúin eðlilegum öryggisbúnaði. Endurvinnslan staðhæfði að svo hefði verið og óaðgæsla konunnar hafi valdið því að hurðin lokaðist á hana. Konan hafi að ástæðulausu ákveðið að nema staðar í dyragættinni þótt hún vissi um sjálfvirkni hurðarinnar í tengslum við skynjun á hreyfingu.
Þá var vísað til þess að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að hurðin hafi nokkurn tíma bilað eða gallar komið fram á henni.
Konan hélt því fram í sínum málatilbúnaði að viðgerð hafi farið fram á hurðinni skömmu eftir atvikið en því mótmælti Endurvinnslan.
Í fyrra féllst héraðsdómur ekki á málatilbúnað konunnar sem áfrýjaði til Landsréttar. Því miður, fyrir konuna, staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms. Í útdrætti úr dómi Landsréttar er komist að þeirri niðurstöðu að um óhappatilviljun hafi verið að ræða en útdrátturinn er eftirfarandi:
„Í málinu deildu aðilar um skaðabótaskyldu B hf. gagnvart A vegna líkamstjóns sem A varð fyrir þegar sjálfvirk rafmagnshurð í húsnæði B hf. lokaðist á hana. Byggði A á því að hurðin hefði verið vanstillt eða biluð og að öryggisbúnaður hennar hefði ekki virkað rétt. B hf. og V hf. byggðu sýknukröfu sína á því að líkamstjón A mætti rekja til óhappatilviljunar. Í dómi Landsréttar kom fram að þótt B hf. hefði óskað eftir því að fá mann frá seljanda hurðarinnar til að fara yfir virkni hennar eftir slysið væri ekkert í málinu sem styddi með beinum hætti að hurðin hefði verið biluð, virkni hennar óeðlileg, að hún hafi verið endurstillt eða að gert hafi verið við hana. Gera yrði ríkar kröfur til aðila eins og B hf. um að umbúnaður við inngang húsnæðis væri öruggur og ylli ekki slysahættu. Á hinn bóginn yrði einnig að gera þá kröfu til þeirra sem gangi um dyragættir í atvinnuhúsnæði að þeir sýni aðgæslu þar sem algengt væri að hurðir lokuðust með sjálfvirkum hætti þegar skynjarar næmu ekki hreyfingu eða hlut í vinnusviði þeirra. Taldi Landsréttur að slysið yrði rakið til óhappatilviljunar. Voru B hf. og V hf. því sýknuð af kröfum A.“
Einnig segir að sú staðreynd að konan hafi staðnæmst í dyragættinni hafi orðið til þess að hreyfing hafi ekki verið numin og lokun hurðarinnar af þeim sökum verið eðlileg.
Endurvinnslan og tryggingafélagið eru því sýknuð af skaðabótakröfu konunnar en málskostnaður fellur niður.
Í viðtali við DV í fyrra sagði lögmaður konunnar að héraðsdómur hafi ekki tekið mark á vitnisburði starfsmanns Endurvinnslunnar þess efnis að hann teldi að hurðin hafi verið vanstillt umræddan dag og hún hefði beinlínis verið hættuleg öldruðum og börnum. Til viðbótar vitnaði starfsmaðurinn um að hurðin hefði verið lagfærð umræddan dag og hún hefði eftir það opnast við mun minna viðnám. Var þetta ein af forsendum þess að málinu var áfrýjað til Landsréttar en ekki gekk betur þar.
Lögmaðurinn vildi einnig að sönnunarbyrðinni yrði snúið við og Endurvinnslan færði sönnur á að hurðin hefði verið í lagi en ekki var á það fallist.