Morgunmaturinn á Landspítalanum í dag var vægast sagt ekki upp á marga fiska. Morgunmaturinn innihélt graut, brauð, ostsneið, hálfan banana og bolla af nýmjólk.
Sólveig Hauksdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, var að minnsta kosti ekki svo hrifin af morgunmatnum en hún deildi mynd af honum í færslu sem hún birti á Twitter-síðu sinni í dag. „Enginn matur er eins ólystugur og Landspítalamorgunmaturinn,“ skrifar Sólveig um morgunmatinn.
Hún segir að grauturinn hafi verið ósaltaður, brauðið hafi verið óristað og þurrt og að ostasneiðin hafi sömuleiðis verið þurr. Þá furðar hún sig á því að með þessu fylgji fullur bolli af nýmjólk.
Enginn matur er eins ólystugur og Landspítalamorgunmaturinn.
Ósaltaður grautur
Óristað, þurrt brauð
Þurr ostsneið
Hálfur banani
Fullur bolli af nýmjólk (??)Svo furðar fólk sig á því að sjúklingar séu með næringarskort. pic.twitter.com/Z70WWUhhPP
— Sólveig (@solveighauks) December 16, 2021
Á heimasíðu Landspítalans er hægt að finna töluvert af upplýsingum um matinn sem er framreiddur þar. „Það er alltaf mjög mikilvægt að nærast vel, sérstaklega þegar maður er veikur því þá þarf líkaminn orku og næringu til að byggja sig upp,“ segir til að mynda á heimasíðunni um næringu og máltíðir sjúklinga.
„Við matseðlagerð á Landspítala er hugað að samspili næringar, bragðs, útlits, gæða, kostnaðar og framleiðslugetu,“ segir einnig á heimasíðunni. Það virðist þó vera sem einungis eitt af þessum atriðum sé tekið til greina við gerð morgunmatsins.