Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær Kjartan Arnar Geirdal Einarsson af ákæru um að hafa haft uppi hatursorðræðu á Facebook síðunni Stjórnmálaspjallið og beindist gegn Semu Erlu Serdar. Sema á ættir að rekja til Tyrklands og hefur verið ötull baráttumaður fyrir réttindum flóttafólks hér á landi. Þessu tvennu hefur ósjaldan verið skeytt saman og ófá andstyggilegi ummæli um Semu fallið á Internetinu.
Ummælin sem tekist var á um í málinu lét Kjartan falla undir frétt sem deilt hafði verið inn í umræddan Facebook hóp. Fyrirsögn fréttarinnar var: „Sema Erla fær sér Ataturk húðflúr,“ sem birtist á DV árið 2018. Í umræðum undir fréttinni á Facebook síðunni sagði Kjartan: „Nennir einhver annar en ég að taka Birnu á hana,“ og vísaði þar væntanlega til morðsins á Birnu Brjánsdóttur.
Kjartan gekkst við að hafa haft ummælin uppi, en var þó sýknaður. Í dómnum segir að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að tengja ummæli mannsins við þjóðerni Semi Erlu og þannig ekki sannað að Semu hafi verið hótað vegna þjóðernis hennar sem er forsenda þessa að ummæli teljist hatursorðræða frekar en hótun í víðtækari skilningi.
Um sakamál var að ræða, og er því ekki loku fyrir því skotið að Sema kunni að höfða meiðyrðamál á einkaréttarlegum grundvelli gegn Kjartani vegna málsins.