fbpx
Laugardagur 01.febrúar 2025
Fréttir

Læknir fær engin svör um meintar rannsóknir á blóðmerahaldi hérlendis – „Sömu sögu er að segja af samskiptum við þingmenn“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 16. desember 2021 18:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blóðmerahald á Íslandi hefur mikið verið í umræðunni síðustu vikur síðan að dýraverndarsamtök afhjúpuðu slæma meðferð blóðmera við blóðtöku hjá ónefndum bændum. Málið hefur meðal annars ratað upp í pontu á Alþingi og hefur þingmaður Flokks fólksins, Inga Sæland, talað fyrir því að blóðmerahald verði með öllu bannað hér á landi.

Aðrir hafa bent á að til séu mannúðlegar leiðir til að halda blóðmerar og þurfi að tryggja að slíkum aðferðum verði fylgt við blóðtöku úr fylfullum hryssum framvegis.

Rósa Líf Darradóttir, læknir, segir þó að vísindin bendi til þess að blóðtaka úr hryssum hér á landi sé í öllum tilvikum dýraníð þar sem magnið af blóði sem sé tekið sé til þess fallið að valda hryssum þjáningu sökum blóðleysis. . Hún ritar um þetta í pistli sem birtist hjá Vísi.

18,5 prósent blóðs tekið í einu

Fyrst bendir Rósa á að reikna megi með að hestar hafi um 75-80 ml af blóði fyrir hvert kíló líkamsþyngdar. Íslenski hesturinn sé að meðaltali 350 kíló að þyngd og því megi áætla heildarblóðmagn um 26-28 lítra.  Við blóðtöku hér á landi megi fjarlægja fimm lítra af blóði vikulega úr hryssum yfir tveggja mánaða tímabil eða alls um 40 lítra. Um 18,5 prósent heildarmagns blóðs sé fjarlægt í hverri blóðtöku.

Rósa Líf setur þetta í samhengi við blóðgjöf mannfólks.

„Til samanburðar má geta þess að karlmenn gefa um 9% af blóði sínu við blóðgjöf eða 450 ml af þeim 5 lítrum sem eru í mannslíkamanum. Fyrir heilbrigðan karlmann tekur það 4-8 vikur að vinna upp þetta blóðtap. Þeir mega því gefa blóð á þriggja mánaða fresti. Konur mega gefa blóð á fjögurra mánaða fresti en þungaðar konur mega aldrei gefa blóð. Ástæðan fyrir því er að einn algengasti fylgikvilli meðgöngu er blóðleysi. Miðað við þekkingu mína á blóðhag manna á ég í erfiðleikum með að trúa því að blóðtakan hafi engin áhrif á hryssurnar og er ég sannfærð um hryssurnar finni fyrir þessum blóðmissi.“

Fær hvorki upplýsingar frá MAST né Ísteka

Rósa segir að því fylgi þjáning að glíma við blóðleysi. Einkenni séu meðal annars hraður hjartsláttur, kuldatilfinning, hungur, þorsti, þreyta, svimi, slappleiki og mæli. Einkennin séu einnig meiri þegar um hraðan blóðmissi sé að ræða.

„Ætla má að erfitt sé fyrir fylfulla meri sem folald gengur undir að vinna upp þetta blóðtap.“

Rósa segir að Ísteka hafi fullyrt að margítrekaðar rannsóknir hafi sýnt fram á að blóðgjafirnar væru hryssum að skaðlausu. Rósa hefur reynt að kalla eftir nánari upplýsingum um þær rannsóknir bæði frá Ísteka sem og MAST en engin svör fengið.

„Sömu sögu er að segja af samskiptum við þingmenn sem vitnað hafa til rannsókna í andsvörum sínum við frumvarpi um bann blóðmerabúskapar. Enginn hefur getað bent mér á þessar rannsóknir.“

Erlendar rannsóknir segja annað

Rósa segir að hún hafi þó fundið rannsóknir sem hafi farið fram erlendis. Þar komi fram að ekki megi fjarlægja meira en 6,1 lítra á tveggja vikna fresti hjá merum sem eru töluvert stærri en íslenski hesturinn, eða um 1000 kg. Það sé magnið sem fjarlægja megi án þess að raska lífeðlisfræðilegu jafnvægi líkama hestsins.

Rósa vísar í fleiri rannsóknir sem allar eiga það sammerkt að niðurstaða þeirra er að blóðtaka megi mest vera á bilinu 7,5-10 prósent af heildarmagni í einni töku. En hér á landi sé umtalsvert meira magn tekið í einu.

Ótrúverðugar fullyrðingar

Rósa efast því um að Ísteka sé að vísa í áreiðanlegar rannsóknir og telur yfirlýsingar fyrirtækisins ótrúverðugar.

„Í ljósi vísindarannsókna sem hér hefur verið vitnað til eru fullyrðingar Ísteka ótrúverðugar. Blóðtaka á vegum fyrirtækisins er langt yfir ráðlögðum mörkum og útilokað að ætla að neikvæð áhrif á heilsu hryssanna séu engin.“

Eins furðar Rósa sig á því að MAST hafi engin gögn birt þrátt fyrir að hafa sagt fjölmiðlum að slík gögn séu til hjá þeim.

„Það vekur undrun mín að ennþá hafi engin gögn verið birt. MAST hefur nú svarað fjölmiðlum og segist hafa þau gögn undir höndum en einhverra hluta vegna ekki ennþá gert þau opinber.

Hvernig er hægt að réttlæta þessar blóðtökur ef þær stangast á við vísindin? Hvernig má það vera að við leyfum okkur að ganga mikið lengra en verklagsreglur um blóðtökur hrossa leggja upp með?“

Því skorar Rósa á MAST og Ísteka að birta þessar meintu rannsóknir fyrir almenningi því það sé ólíðandi í vísindastarfi að vitna í rannsóknir en færa ekki fram heimildir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að Inga Sæland þurfi að passa sig: „Derringur er sjaldnast af hinu góða“

Segir að Inga Sæland þurfi að passa sig: „Derringur er sjaldnast af hinu góða“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ætla ekki að gera úrbætur á hættulegu hringtorgi þar sem keyrt var á átta ára dreng

Ætla ekki að gera úrbætur á hættulegu hringtorgi þar sem keyrt var á átta ára dreng