Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur gefið út skýrslu um mat á skipulagðri brotastarfsemi hér á landi. Þar viðrar greiningardeildin ýmsar ógnir í samfélaginu okkar sem grunur leikur á að fari vaxandi á komandi misserum.
Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að miklar líkur eru taldar að á skipulagðri glæpahópar séu að nýta sér farandverkafólk, meðal annars frá Evrópulöndum, sem sé flutt hingað gagngert til að það sæki um fyrirgreiðslu til sveitarfélaga á ólögmætum forsendum. Meðlimir í glæpahópi haldi svo eftir hluta af þeim fjárhagsstuðning sem viðkomandi farandmenn fá frá hinu opinbera.
Í skýrslunni er rakið að með skráningu lögheimilis á Íslandi öðlist einstaklingur ýmis réttindi. Til að mynda séu allir, sem átt hafa hér lögheimili í sex mánuði eða lengur, sjúkratryggðir og svo sé lögheimilisskráning forsenda fyrir félagsþjónustu sveitarfélaga svo sem fjárhagsaðstoð, aðstoð við húsnæðismál og félagsleg ráðgjöf.
„Ekki eru ákvæði um að einstaklingur þurfi að vera búsettur í ákveðið langan tíma til að njóta þessara réttinda. Upplýsingar lögreglu benda til að hér á landi séu fyrirætki sem bjóði upp á falsaða ráðningarsaninga, þ.e. viðkomandi fær ráðningarsaning hjá fyrirtækiu meðvitaður um að engin vinna sé í boði og að samningurinn sé gerður gagngert í þeim tilgangi að viðkomandi geti sótt um bætur eða fyrirgreiðslu til sveitarfélags.“
Í skýrslunni kemur fram að frá árinu 2018 hafi rúmlega 100 málum vegna umsókna um lögheimili verið vísað til lögreglu vegna gruns um fölsuð skilríki. Falsaðir ráðningarsamningar séu gerðir sökum þess að til að fá skráð lögheimili þarf að framvísa viðeigandi gögnum á borð við ráðningarsamning, staðfestingu á skólavist, vottorð um fjölskyldutengsl ef framfærsla kemur frá maka eða öðrum aðstandenda, staðfestingu á lífeyrisgreiðslum, staðfestingu á nægjanlegum föstum reglubundnum greiðslum eða staðfestingu á bankainnistæði. Með öðrum orðum þarf fólk að sanna að það geti séð fyrir sér hér á landi.
Í skýrslunni eru viðraðar áhyggjur af því að þessum málum eigi eftir að fjölga. Til að sporna við því þurfi að endursoða reglur um skráningu lögheimili og útgáfu kennitalna.
„Líklegt er talið að skipulagðir brotahópar muni leitast við að hagnýta sér bága stöðu farandfólks, m.a. innan Evrópu, flytja það til Íslands gagngert í því skyni að sækja um bætur eða fyrirgreiðslu til sveitarfélags á ólögmætum forsendum og haldi svo eftir hluta af þeim greiðslum sem viðkomandi fær frá hinu opinbera. Huga þarf að fyrirkomulagi varðandi skráningar lögheimils og útgáfu kerfiskennitalna og þá sérstaklega að efla eftirlit og skoðun framlagðra skjala til að koma í veg fyrir misnotkun. Það færist í vöxt að ýmis þjónusta sé veitt af hinu opinbera á grundvelli persónuauðkenna“
Í skýrslunni kemur einnig fram að svik í virðisaukaskattskerfinu hafi færst í auka og séu talin hluti skipulagðrar brotastarfsemi og félagslegu undirboði.
„Talið er að ákveðnir hópar sérhæfi sig í þessari brotastarfsemi og noti hvert fyrirtækið (kennitölu) á eftir öðru í því skyni að misnota skattkerfið. Í ýmsum tilvikum er um sömu stjórnendur að ræða en einnig eru einstaklingar fengnir í ýmis verk (auðkennisþjófnaður með samþykki). Helstu einkenni virðisaukasvika eru að ekki er um að ræða raunverulegan atvinnurekstur. Dæmi eru um að fólk í félagslega veikri stöðu og fólk búsett erlendis sé skráð í stjórn slíkra „fyrirtækjaskelja“ og litlar sem engar launagreiðslur fara fram. Oft eru forráðamenn með mörg félög skráð en einvörðungu sum í „starfsemi“.“
Í skýrslunni kemur einnig fram að talið sé nær öruggt að umfangsmikið peningaþvætti eigi sér stað hér á landi.