Tveir karlmenn á þrítugsaldri hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna til 10. janúar, eða fjórar vikur sem er hámarkslengd gæsluvarðhaldsúrskurðar samkvæmt lögum.
Mennirnir eru grunaðir um að hafa stolið fjölda farsíma úr búningsklefum íþróttahúsa víða um höfuðborgarsvæðið að undanförnu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Þar kemur jafnframt fram að rannsókn lögreglu sé umfangsmikil enda talið að um „skipulagða þjófnaði“ sé að ræða.
Fram kemur í tilkynningu lögreglu, sem áður, að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.