Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, sagði í samtali við Stundina í gær að Viljinn.is, sem Björn Ingi Hrafnsson er eigandi að, væri ekki raunverulegur fjölmiðill.
„Við höfum séð þetta á síðastliðnum 18 mánuðum að Björn Ingi titlar sig sem blaðamann á Viljanum en hann er ekkert annað en bloggari á sinni eigin bloggsíðu,“ sagði Sigríður.
Hún sagði Björn Inga ekki hafa verið að auka skilning fólks á því hvað felst í því að vera blaðamaður. „Ég er ekki þar með að segja að hann ástundi óheiðarleg vinnubrögð. Ég er að halda því fram að miðillinn hans geti ekki talist áreiðanlegur fréttamiðill sem vinnur samkvæmt skilgreiningum ritstjórnar og þeim vinnubrögðum sem þar eru viðhöfð því þetta er bara einn maður sem heldur úti bloggsíðu, það getur aldrei verið ritstjórn.“
Björn Ingi hefur nú svarað fyrir sig eftir ummæli Sigríðar. „Þetta er ansi merkileg sending frá formanni Blaðamannafélags Íslands, sem reyndar er líka starfsmaður Ríkisútvarpsins sem er hægt og bítandi að kremja niður frjálsa fjölmiðlun í landinu og þarf endalaust meira fjármagn,“ segir hann í upphafi opinnar færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni.
„Kannski er draumurinn sá að allir fjölmiðlamenn vinni hjá ríkinu. Afmælisdagur dóttur minnar var svo velheppnaður að ég nenni eiginlega ekki að elta ólar við það að formaður félags blaðamanna kalli mig bloggara, hún má bara vel gera það fyrir mér. Að hún skuli nefna mig og Viljann sérstaklega er líklega bara vísbending um að maður sé að gera eitthvað rétt.“
Björn Ingi bendir þá á að hann sé með mikla reynslu af fjölmiðlun. „Ég hef áratuga reynslu á flestum helstu fjölmiðlum landsins; hef verið blaðamaður, fréttastjóri, þingfréttamaður, íþróttafréttamaður, ritstjóri, útgefandi og þáttastjórnandi í mörg hundruð þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Og höfundur nokkurra bóka ofan í það. Og undanfarin ár hef ég verið svo lánsamur að eiga bein og milliliðalaus samskipti við þúsundir landsmanna vegna frétta af faraldrinum; venjulegs fólks í þessu landi sem og sérfræðingum í því skyni að miðla upplýsingum og koma álitaefnum á framfæri sem þjóðin hefur áhuga á. Ég er að hugsa um að halda því bara áfram,“ segir hann.
Að lokum skýtur Björn Ingi á Sigríði en hann væri til í að sjá hana verja frjálsa fjölmiðlun. „En mikið væri nú gott að sjá formann Blaðamannafélagsins lyfta litlafingri til að verja frjálsa fjölmiðlun í þessu landi áður en hún deyr út í stað þess að ráðast að þeim sem eru þó að reyna að gera eitthvað.“