Ítrekaðar frumubreytingar hafa orðið í líkama Rutar Hendriksdóttur og hafa þær náð þriðja stigi en fjórða stigs frumubreytingar eru staðfest krabbamein. Vegna augljóslega mikillar hættu á krabbameini var tekin ákvörðun um að fjarlægja leg og legháls. Lífsnauðsynleg aðgerð. Aðgerðina átti að framkvæma þann 13. desember síðastliðinn. „Enginn fer í legnám af gamni sínu. Það er ekki val,“ segir Rut en aðgerðin er stór og umfangsmikil.
Þrátt fyrir þetta var Rut óvænt send heim á aðgerðardaginn vegna þess að enginn svæfingarlæknir var tiltækur. Skömmu síðar var henni tjáð að búið sé að fresta öllum valkvæðum aðgerðum fram að áramótum. Aðgerðin fer því í fyrsta lagi fram í janúar og raunar er allsendis óvíst að af henni verði þá.
Rut sendi bréf á heilbrigðisráðuneytið, forsætisráðuneytið, Landlækni og framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landspítala vegna málsins og birti bréfið á Facebook-síðu sinni í dag. Hún gaf DV jafnframt leyfi til að endurbirta bréfið. Hún lýsir þeim hugsunum sem þjóta um hugann í aðdraganda þess að ákvörðun um svona aðgerð er tekin:
„Undirbúningur fyrir aðgerð sem þessa er gríðarlegur, það er að segja andlegi undirbúningurinn. Hugurinn fer um víðan völl, allt frá því að geta ekki eignast börn lengur, í það að velja sér kistu. Er ég að gera rétt? Svarið er alltaf já, það er að segja ef ég vil sjá börnin mín verða fullorðin.“
Hún veltir jafnframt vöngum yfir því hvers vegna í ósköpunum svona mikilvægum aðgerðum sé frestað út af Covid-faraldrinum og þeim ekki einu sinni fundin ný dagsetning:
„Þegar þetta er skrifað eru 14 á sjúkrahúsi vegna Covid. Hversu margir eru á sjúkrahúsi vegna krabbameins? Hvernig heilbrigðiskerfi er hér starfrækt þegar öllum VAL aðgerðum er frestað vegna Covid, þegar meirihluti þjóðar er margbólusettur? Covid faraldurinn hefur nú heiðrað okkur með nærveru sinni í tæp tvö ár og ekki sér fyrir endann á. Frumubreytingar og leghálskrabbamein fara ekki í frí í 2 ár. Á tveimur árum deyja konur.“
Hún ávarpar viðtakendur bréfsins í lok þess og bendir á að legnám sé ekki val þrátt fyrir að það falli undir svokallaðar valkvæðar aðgerðir:
„Kæri heilbrigðisráðherra, starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins, landlæknir, sóttvarnalæknir og stjórnendur Landspítala Íslands. Það er algjört lágmark að ég og þær konur sem mættar vorum í lífsnauðsynlega aðgerð þann 13. desember 2021 og sendar aftur heim, fáum nýjan tíma staðfestan strax. Ekki í janúar heldur strax. Legnám er ekki val.“
Færslan er í heild sinni eftirfarandi:
„Ég verð seint þekkt fyrir að þegja þegar eitthvað öskrar inni í mér á réttlæti. Ég hef nú sent neðangreint bréf á heilbrigðisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, forsætisráðuneytið, landlækni og framkvæmdastjóra aðgerðarsviðs Landspítala
Miðvikudagur 15. desember og ég er mætt í vinnuna, tveimur dögum eftir aðgerðardag. Ég er ekki mætt af því að allt gekk svo vel. Síður en svo.
Ég var lögð inn á kvennadeild Landspítalans þann 13. desember kl. 7:30. Mér er fylgt í vistarverur næstu 1-2 sólarhringa og blóðprufa tekin. Í kjölfarið kemur læknirinn sem framkvæmir aðgerðina og fer yfir allt, aðgerð og eftirfylgni.
Legnám er stór aðgerð, sem flokkast undir mikið inngrip. Enginn fer í legnám af gamni sínu. Það er ekki val.
Mín ástæða eru ítrekaðar frumubreytingar og eftir tvo keiluskurði í kjölfar þriðja stigs frumubreytingar (athugið að 4.stigs frumubreytingar eru staðfest krabbamein) var loksins tekin ákvörðun um að fjarlægja leg og legháls. Ekki val, heldur ákvörðun sem tekin er til að fyrirbyggja krabbamein. Það er að segja ef frumubreytingarnar hafa ekki, á þessum mánuðum valdið krabbameini nú þegar. Málið er nefnilega að eftir síðustu sýnatöku var ekki hægt að fullyrða að allt væri eðlilegt. Gæði sýnanna voru takmörkuð eftir keiluskurðina og því ekki hægt að taka af allan vafa.
Undirbúningur fyrir aðgerð sem þessa er gríðarlegur, það er að segja andlegi undirbúningurinn. Hugurinn fer um víðan völl, allt frá því að geta ekki eignast börn lengur, í það að velja sér kistu. Er ég að gera rétt? Svarið er alltaf já, það er að segja ef ég vil sjá börnin mín verða fullorðin.
Aðgerðardagur 13. desember 2021 og ég er mætt á kvennadeild Landspítalans, skráð inn og allt tilbúið. Læknirinn kemur aftur, með slæmar fréttir. Enginn svæfingalæknir er tiltækur á Landspítalanum og ég er send heim. Heim með engin svör um framhaldið en ótal spurningar.
Daginn eftir, í miklum tilfinningarússíbana leita ég eftir upplýsingum. Svörin sem ég fæ eru að því miður sé ekki hægt að segja til um hvenær af þessu verði því að búið sé að loka á allar val aðgerðir fram að áramótum allavega. Mér er tjáð að allar aðgerðir sem ekki eru staðfest krabbamein eða ef einstaklingur sé ekki í lífshótandi ástandi, séu val aðgerðir.
Læknirinn minn reyndi að koma mér að fyrir jól, en það gekk ekki. Það gekk ekki. Það gekkekki. Ég var komin inn, send heim og svörin eru að það gekk ekki.
Ég fæ þær upplýsingar að haft verði samband við mig þegar staðfest plan fyrir janúar sé komið á hreint en það geti þó alltaf komið fyrir að það verði frestað aftur. Ástandið sé nefnilega mjög viðkvæmt þessa dagana vegna Covid og manneklu á skurðstofu.
Ástand mitt er mjög viðkvæmt. Ástand okkar kvennanna sem vorum sendar heim þennan dag er vægast sagt mjög viðkvæmt.
Þegar þetta er skrifað eru 14 á sjúkrahúsi vegna Covid. Hversu margir eru á sjúkrahúsi vegna krabbameins? Hvernig heilbrigðiskerfi er hér starfrækt þegar öllum VAL aðgerðum er frestað vegna Covid, þegar meirihluti þjóðar er margbólusettur? Covid faraldurinn hefur nú heiðrað okkur með nærveru sinni í tæp tvö ár og ekki sér fyrir endann á. Frumubreytingar og leghálskrabbamein fara ekki í frí í 2 ár. Á tveimur árum deyja konur.
Kæri heilbrigðisráðherra, starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins, landlæknir, sóttvarnalæknir og stjórnendur Landspítala Íslands. Það er algjört lágmark að ég og þær konur sem mættar vorum í lífsnauðsynlega aðgerð þann 13. desember 2021 og sendar aftur heim, fáum nýjan tíma staðfestan strax. Ekki í janúar heldur strax. Legnám er ekki val.
Virðingarfyllst,
Jakobína Rut Hendriksdóttir“