Mennirnir sem sendir voru í ótímabundið leyfi frá störfum hjá Innheimtustofnun sveitarfélaganna heita Jón Ingvar Pálsson, forstjóri stofnunarinnar, og Bragi Rúnar Axelsson, forstöðumaður stofnunarinnar á Ísafirði.
Samkvæmt frétt BB.is um málið snýst málið meðal annars um það að komið hafi fram í úttekt Ríkisendurskoðunar, sem ráðist var í vegna fyrirhugaðrar uppstokkunar á framkvæmd meðlagsinnheimtu hér á landi, að stjórnendur stofnunarinnar hafi stýrt innheimtuverkefnum til fyrirtækja í sinni eigu. Bragi rekur innheimtufyrirtæki og lögfræðistofu á Ísafirði.
Í gærkvöldi var sagt frá því í tilkynningu frá Innheimtustofnun sveitarfélaganna að stjórn stofnunarinnar hefði verið sett af í heilu lagi eftir athugasemdir Ríkisendurskoðunar og að ný stjórn hefði sent þá Jón Ingvar og Braga í áðurnefnt ótímabundið leyfi. Kom þar jafnframt fram að Ríkisendurskoðun hefði upplýst ráðuneyti sveitarstjórnarmála að svör Innheimtustofnunar hefðu verið „óviðunandi,“ án þess þó að nánar væri farið út í hvað væri átt við með því.
Aldís Hilmarsdóttir, nýr stjórnarformaður Innheimtustofnunar, sagði við Fréttablaðið í gær að hún gæti ekki tjáð sig um málið, en samkvæmt heimildum DV er málið litið alvarlegum augum.
Þá hafði Fréttablaðið eftir Jóni Ingvari í samtali nú í morgun að hann hefði ekkert um málið að segja: „Ég veit ekkert út á hvað málið gengur. Það er ekki búið að kynna mér neitt.“