Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra hefur gefið út ákæru á hendur Bandaríkjamanninum Nick Tomsick fyrir umferðarlagabrot þann 21. maí síðastliðinn. Er honum gefið að sök að hafa, skömmu eftir hádegi fimmtudaginn 27. maí 2021, ekið bifreið, með 109 km hraða á klukkustund um Þverárfjallsveg í Skagabyggð, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund.
Ekki hefur tekist að hafa uppi á Tomsick til að birta honum ákæruna og því er hún auglýst í Lögbirtingablaðinu. Þar er hann kvattur til að mæta fyrir Héraðsdóm Norðurlands vestra þann 18. janúar næstkomandi og standa fyrir máli sínu.
Nick Tomsick, sem er fæddur í Denver í Colarado-fylki en er auk þess með króatískt ríkisfang, er körfuboltaáhugamönnum góðu kunnur en hann lék þrjú tímabil hér á landi með þremur liðum. Hann kom fyrst hingað til lands tímabilið 2018-2019 til að spila með Þór í Þorlákshöfn en flutti sig síðan um set til Stjörnunnar í Garðabæ þar sem hann landaði meðal annars bikarmeistaratitli með liðinu. Á síðasta tímabili spilaði hann með Tindastól norðan heiða.
Fyrir þetta tímabil flutti Tomsick hins vegar af landi brott og gerði samning við KB Prishtina frá Kósovó. Þar er Tosmick byrjunarliðsmaður en liðið lúrir í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar þar ytra.