Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. „Það eru flestir sem hafa bara beðið um þetta. Ég tek þátt í þessu sjálfur persónulega því mér finnst ég þurfa að taka þátt í þessu,“ er haft eftir Eiríki um þessa óvenjulega háu greiðsluseðla sem hafa verið sendir í heimabanka fólks. Hann sagði að um sérstakt afmælisátak sé að ræða í tilefni 30 ára afmælis Omega. Það hófst í september og stendur fram á næsta ár. Í átakinu felst að fólk, sem hefur áður styrkt sjónvarpsstöðina, fær sendan aukalegan valgreiðsluseðil upp á 30.000 krónur. Fyrir fær fólk 5.000 króna greiðsluseðil í hverjum mánuði.
Omega líkir þessari aðferð við það sem Rauði krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar gera en þar eru upphæðirnar þó miklu lægri. Meðal þeirra sem hafa fengið þessa greiðsluseðla núna er eldra fólk, jafnvel á tíræðisaldri. „Þetta er bara val, fólk velur þetta,“ sagði Eiríkur aðspurður um hvort ekki sé verið að biðja um ansi háa upphæð. Hann sagði að sjónvarpsstöðin hafi engar auglýsingatekjur né ríkisstyrki en starfsemin sé mjög mikilvæg. „Fólk er að frelsast í gegnum starfið, eignast lifandi trú á Jesú Krist og hefur bjargast,“ sagði hann.
Í október var hann dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 110 milljóna í sekt fyrir meiriháttar skattsvik en hann skilaði inn röngum framtölum frá 2011 til 2016. Einnig var hann sakfelldur fyrir að hafa vanrækt að telja fram miklar úttektir fyrir sjálfan sig úr fyrirtæki í rekstri.
„Við erum ekki að plokka peninga af fólki, við viljum ekki gera það. Það er bara einn hnappur, delete, þá er því eytt,“ er haft eftir honum um 30.000 króna rukkunina.
Hann sagði alltof fáa greiða. „Hvernig eigum við að lifa nema að fólk taki þátt í þessu og eigi hlutdeild í þessu?“ Við þurfum að fá miklu meira inn til að reka fjölmiðla. Það er mikill kostnaður, en árangurinn er mikill. Þið megið bara standa með okkur. Hérna eru margir að selja eiturlyf og nauðgarar, við erum bara ljós í myrkri,“ sagði hann.