Baldur Freyr Einarsson hefur beðið fjölskyldu Magnúsar Freys Sveinbjörnssonar afsökunar vegna lýsinga í bók sinni, Úr heljargreipum, á þeim atburði er hann varð Magnúsi að bana árið 2002.
Sendi Baldur Vísir.is yfirlýsingu í gærkvöld í kjölfar sýningar Stöðvar 2 á viðtali við móður Magnúsar, Þorbjörgu Finnsdóttur.
Þorbjörg hefur sakað Baldur um að fara rangt með staðreyndir í lýsingu sinni á atvikinu í bókinni og að sú lýsing sé engan veginn í samræmi við lýsingu atvikinu í dómi um málið. Einnig hafi bókin verið skrifuð og gefin út án vitundar fjölskyldunnar. Segir hún Baldur reyna að hvítþvo sjálfan sig í stað þess að axla fulla ábyrgð á verknaðinum og hann sverti minningu og mannorð sonar síns með ósönnum lýsingum af þessum hræðilega atburði sem hafi haft svo miklar afleiðingar fyrir fjölskylduna.
Í bók sinni lýsir Baldur Freyr lífi sínu á braut glæpa og fíknar og hvernig hann sneri því við. Undanfarin ár hefur hann helgað lífi sínu meðferðarmálum og trúmálum.
Í yfirlýsingunni sem hann sendi Vísir.is í gærkvöld segist hann harma þann sársauka sem hann hafi valdið Þorbjörgu Finnbogadóttur, fjölskyldu hennar og vinum með lýsingum sínum í bókinni, en yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Ég harma óendanlega þann sársauka sem ég hef valdið Þorbjörgu Finnbogadóttur, fjölskyldu hennar og vinum með lýsingum mínum í bókinni. Það var aldrei ætlun mín að særa þau meira en orðið er og það voru mistök af minni hálfu að hafa ekki samband við þau áður en ég ritaði kaflann sem fjallar um þann sársauka sem ég olli þeim.
Ég var valdur að dauða Magnúsar og vil ég á engan hátt draga úr ábyrgð minni í því máli.
Fangelsisdómurinn var ekki mín refsing. Það var miklu frekar sársaukinn, skömmin og sektarkenndin sem fylgir því að vera valdur að dauða ungs manns í blóma lífsins, með tilheyrandi harmi og óbætanlegum missi fyrir fjölskyldu hans og vini.
Ég hélt lengi vel að þessi megna vanlíðan sem ég lifi með væri mín afplánun, en hún er í raun dagleg áminning fyrir mig um þá ábyrgð sem ég ber á gjörðum mínum og afleiðingum þeirra. Ég átta mig á að það er aldrei hægt að bæta fyrir það að taka líf einhvers en það eina sem ég get gert er að gera mitt besta til að nota reynslu mína til að hjálpa öðrum af villigötum.
Síðustu fjórtán ár ævi minnar hef ég í einlægni reynt að nýta þessa hræðilegu reynslu til að hjálpa öðrum og þannig reynt að koma í veg fyrir að mín skelfilegu mistök verði endurtekin af öðrum.
Það var aldrei, er ekki og mun aldrei verða ætlun mín að firra mig af nokkurri ábyrgð og ég harma að ég hafi ekki verið nógu skýr í endursögn minni á þessum skelfilega atburði.
Ég valdi að beita ofbeldi þetta kvöld sem hafði hræðilegar afleiðingar og varð að harmleik fyrir fjölda fólks sem aldrei verður bætt fyrir. Fyrir það er ég fullur iðrunar og á ég þá einu einlægu ósk að saga mín geti orðið öðrum víti til varnaðar.“