Þann 11. nóvember á þessu ári fjallaði DV um „jólagjöfina í ár“ sem var að gera allt brjálað í verslun Costco í Kauptúni. Um er að ræða loftsteikingarpott, eða AirFryer eins og potturinn er gjarnan kallaður. Potturinn „djúpsteikir“ mat með lofti en ekki olíu og er afar vinsæll, ekki síst vegna áhrifavalda og annarra samfélagsmiðlastjarna.
Svo virðist vera sem umræddur loftsteikingarpottur verði undir hverju einasta jólatré á landinu því heilu brettin af pottunum hverfa á nokkrum mínútum. Það er oft talað um að hlutir seljist eins og heitar lummur en eftir þessi jól verður ábyggilega talað um að hlutir seljist eins og loftsteikingarpottar í Costco fyrir jól.
Sigurður Helgi Pálmason er einn þeirra sem varð vitni að þessu kaupæði en hann ræddi við Auðun Georg Ólafsson á K100 um kaupæðið. Sigurður var staddur í Costco til að kaupa jólagjöf fyrir fjölskyldumeðlim og áttaði sig ekki alveg á því hvers vegna þessi langa röð var búin að myndast fyrir utan verslunina.
Þegar hann sá átta full vörubretti af loftsteikingarpottunum vinsælu áttaði hann sig á því hvers vegna fólk beið fyrir utan.
Sigurður segir að fólk hafi verið afar fljótt að tæma alla pottana af brettunum. „Það tók svona þrjár mínútur fyrir allar palletturnar að hverfa,“ segir hann.
Samkvæmt Sigurði keypti einn aðili 14-16 loftsteikingarpotta. „Það eru allir í fjölskyldunni hans að fá Air Fryers í jólagjöf,“ segir hann. „Það voru allir brjálæðislega ánægðir. Nema þeir sem komu svona tíu sekúndum of seint,“ segir Sigurður en hann ákvað að grípa með sér tvo potta líka fyrst hann hafði tækifæri til þess.