fbpx
Laugardagur 01.febrúar 2025
Fréttir

Inga er komin með nóg – „Nú hefur þrúgandi þögnin verið rofin“

Máni Snær Þorláksson
Laugardaginn 11. desember 2021 16:30

Til vinstri: Inga Auðbjörg Straumland - Til hægri: Pétur G. Markan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Eftir fordæmalausa þolinmæði þjóðarinnar gagnvart stjórnarmyndun þingmeirihlutans hefur nú loksins litið dagsins ljós fjárlagafrumvarp ársins 2022. Fá hafa vafalaust iðað meira í skinninu eftir því að blaða í rafrænum talnarunum fjárlaga heldur en forsvarsfólks þeirra félagasamtaka sem eiga starfsemi sína að einhverju leyti undir þeim tölustöfum sem birtast svart á hvítu í frumvarpinu. Ég verð því að viðurkenna, að eftir að hafa flett upp útgjaldaliðnum sóknargjöld í frumvarpi og fylgiskjölum, hef ég verið að furða mig á þögn þjóðkirkjunnar.“

Svona hefst pistill sem Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, skrifar en pistillinn birtist á Vísi í dag undir yfirskriftinni „Jú, það er komið nóg“.

Pétur G. Markan biskupsritari skrifaði á dögum pistil um málið sem birtist á Vísi en pistill Ingu er í raun og veru svar við pistli Péturs. „Nú hefur þrúgandi þögnin verið rofin, enda hefur biskupsritari nú sent inn umsögn í nafni Biskupsstofu og birt samhljóða grein um leið,“ segir Inga.

„Við hjá Siðmennt erum stundum sökuð um að koma litlu öðru á framfæri en gagnrýni á þjóðkirkjufyrirkomulagið, svo ég hef reynt að halda að mér höndum svona korter í Kristsmessu, en ég verð þó að brjóta odd af oflæti mínu og fá að svara grein Péturs G. Markan í örfáum orðum.“

Forsaga málsins

Inga byrjar á því að útskýra forsögu málsins í stuttu máli. „Árið 1987 tók ríkið yfir innheimtu sóknargjalda á landsvísu en fram að því hafði það réttilega verið innheimt af Kirkjunni sjálfri. Miðað var við ákveðna upphæð og átti svo að uppfæra þá upphæð með tilliti til verðlagsbreytinga á ári hverju. Í hruninu voru forsendur brostnar og ríkið lækkaði upphæðina, sem gjarnan er framsett sem ákveðin upphæð á mánuði, per skráðan einstakling,“ segir hún.

„Nú telur þjóðkirkjan sig hlunnfarna, vill að miðað sé við upphæðina frá því fyrir hrun, framreiknaða miðað við verðlag ársins í ár, og kvartar reglulega yfir þessu. Þá voru sóknargjöld hækkuð tímabundið til eins árs í fyrra, en risafélög eins og þjóðkirkjuna munar um minna; hækkunin hljóðaði upp á tugmilljónir í hverjum mánuði. Nú gerir frumvarpið ekki ráð fyrir því að hin tímabundna hækkun haldi sér og það er ástæða þess að biskupritari steytir hnefann og spyr hvort ekki sé komið nóg.“

„Þar er um að ræða milljarða á milljarða ofan“

Inga er, líkt og fyrirsögn þessarar fréttar gefur til kynna, svo sannarlega komin með nóg. „Ég er heldur betur komin með nóg af því tilkalli sem þetta útvalda trúfélag telur sig hafa í íslensku þjóðfélagi. Ég er komin með nóg af tilkalli til fjármuna og nóg af tilkalli til félagslegrar stöðu, lagalegrar stöðu og forréttinda,“ segir hún.

„Í raun þykir mér biskupsritari skrifa sig sjálfur inn í þetta hlutverk freka kallsins, því greinin er útötuð í orðalagi sem sæmir ekki formlegum umsagnaskrifum biskupsritara til ríkisins, þar sem rætt er um svikin loforð, stuld á sjóðum trúfélaganna og ígildi fjárdráttar. Þá leyfir biskupsritari sér ítrekað að koma fram fyrir hönd allra trúfélaga með orðalagi sínu, í stað þess að tala fyrir sig og sitt félag. “

Pétur biskupsritari vill meina að sóknargjaldið eigi að vera mun hærra en það er í dag en Inga er vægast sagt ósammála því. Hún bendir á að ólíkt öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum fær Þjóðkirkjan aukaframlag úr ríkissjóði sem jafngildir launum yfir 100 presta. Þá bendir hún einnig á að nýlega hafi ríkið gert samning við Þjóðkirkjuna sem kveður á um fastan stuðning til 15 ára, óháð hvort félögum fækki í kirkjunni.

„Þar er um að ræða milljarða á milljarða ofan. Það er því nánast með ólíkindum að Þjóðkirkjan finni sig í sífellu knúna til að kvarta yfir skörðum hlut sínum, sem að margra mati er alls ekki svo skarður. Þá hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan í hruninu, og viðhorf þjóðarinnar að sönnu orðið veraldlegri, samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið.“

Kemur með lausn fyrir kirkjuna

Pétur lýsti ástandi kirkjurýma í pistli sínum og sagði að í þeim væru gríðarleg vandamál vegna leka, myglu og annara afleiðinga af vanræktu viðhaldi. Inga er þó með lausn á því fyrir kollega sína í kirkjunni. „Ef að rekstur kirkna um allar jarðir er Þjóðkirkjunni ofviða, þá hlýtur svarið að vera að selja eitthvað af þeim, í stað þess að láta þær allar grotna niður í þrjósku. Ég hef komið inn í tónleikarými og skemmtistaði í Evrópu sem eru í afhelguðum kirkjum, og það hefur komið feykivel út,“ segir hún.

„Þá gæti hið opinbera jafnvel keypt eitthvað af þessum eignum og gert að samkomuhúsum fyrir almenning, þar sem fólk getur hist og haldið viðburði, þvert á lífsskoðanir. Þjónustuþegar Siðmenntar eru til dæmis oft í vandræðum með staði fyrir útfarir—en veraldlegum útförum hefur verið úthýst úr rýmum Þjóðkirkjunnar—og með örlitlum breytingum gætu margar kirkjur landsins verið frábær fjölnota athafnahús fyrir fólk með alls konar lífsskoðanir.“

„Væri ekki bara réttast að bjóða það út?“

Pétur fór í pistli sínum yfir fjöldann allan af verkefnum sem Þjóðkirkjan sinnir, eins og sálgæslustarf, mannúðar- og velferðarstarf, barna og æskulýðsstarf, eldriborgarastarf, messuhald, andlegt ræktarumhverfi og menningarstarf. Inga hrósar þessari starfsemi en veltir því fyrir sér hvort það sé sanngjarnt að farið sé þannig með peningana að aðeins eitt félag geti boðið upp á þjónustu sem þessa.

„Lög um opinber innkaup leggja ríka áherslu á innkaup á verðmætum vörum og þjónustu eigi að fara í útboð. Ef við erum sammála um að sálgæsla og annað velferðarstarf sem kirkjan sinnir sé mikilvægt starf sem ríkið eigi að standa undir fjárhagslega – væri ekki bara réttast að bjóða það út?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ólöf Tara er látin

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Flugslysið hörmulega: Ákvað að fara fyrr heim til að komast á stefnumót með kærastanum

Flugslysið hörmulega: Ákvað að fara fyrr heim til að komast á stefnumót með kærastanum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Eydís allt annað en sátt við Ingu Rún: „Er konunni alvara?“

Eydís allt annað en sátt við Ingu Rún: „Er konunni alvara?“
Fréttir
Í gær

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur
Fréttir
Í gær

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta
Fréttir
Í gær

Sakar RÚV um fúsk og óvönduð vinnubrögð- „Hvað næst RÚV?“

Sakar RÚV um fúsk og óvönduð vinnubrögð- „Hvað næst RÚV?“
Fréttir
Í gær

Brynjar Karl sakar fréttamann um að hafa snúið út úr viðtali á versta veg – „Hvenær ætla menn að fatta að það er ekki hægt að leggja menn eins og mig í einelti?“

Brynjar Karl sakar fréttamann um að hafa snúið út úr viðtali á versta veg – „Hvenær ætla menn að fatta að það er ekki hægt að leggja menn eins og mig í einelti?“