Blaðamenn Stundarinnar, Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson og Davíð Þór Guðlaugsson, gerðu sér á dögunum ferð til bæjarins Påryd í Svíþjóð þar sem þeir höfðu upp á að minnsta kosti 1.500 tonn af íslensku plasti, sem legið hefur óhreyft í fimm ár, í niðurníddu vöruhúsi. Þar innan- og utandyra fundu þeir plastúrgang frá vörumerkjum eins og Bónus, Krónan og MS sem öll starfa eftir strangri umhverfissstefnu. Hægt er að lesa um málið í nýjasta tölublaði Stundarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá Úrvinnslusjóði átti plastið að hafa verið endurunnið en í grein Stundarinnar kemur fram að endurvinnslufyrirtækin Íslenska gámafélagið og Terra hafi fengið hundruði milljóna króna úr sjóðnum til þess að endurvinna plast – þar á meðal það sem endaði í vöruhúsinu ytra. „Íslenski plasthaugurinn í Svíþjóð er dæmi um hvernig rekjanleiki í endurvinnslu getur brugðist, án afleiðinga fyrir þá íslensku aðila sem bera formlega ábyrgð,“ segir í grein Stundarinnar.
Þá kemur fram að Úrvinnslusjóður hafi haft vitneskju um tilvist plastsins í vöruhúsinu síðan í október 2020 en hafi ekki með neinum hætti brugðist við vandamálinu.
Milliliðurinn í málinu er sænska endurvinnslufyrirtækið Swerec en saga þess er vafasöm í meira lagi. Fyrirtækið hefur verið kært til lögregluyfirvalda í Noregi og Svíþjóð, ásamt því að hafa sætt rannsókn í Lettlandi vegna starfshátta sinna. Þrátt fyrir hneykslismál tengd fyrirtækinu stunda íslensk fyrirtæki enn viðskipti við fyrirtækið enda er ódýrast að senda plastið til Svíþjóðar frekar en virtari fyrirtækja annarsstaðar í Evrópu.
Hér er hægt að lesa umfjöllun Stundarinnar um málið en inn í það fléttast meðal annars þekktur sænskur glæpamaður á svæðinu sem hafði þegið greiðslu frá Swerec til þess að sjá til þess að plastið yrði endurunnið. Sá samningur gekk ekki eftir.