Morgunblaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að verðhækkunin sé tilkomin vegna ákvörðunar verðlagsnefndar búvara sem hækkaði verð til bænda og afurðastöðva. Ákveðið var að taka væntanlegar launahækkanir í mjólkurvinnslunni um næstu áramót með inn í hækkunina til að ekki þurfi að hækka verðið aftur í janúar.
Bændur fá nú tæplega 105 krónur fyrir hvern mjólkurlítra en hækkunin til þeirra að þessu sinni er 3,38 krónur og byggist á hækkun á verði aðfanga og hækkun launa.
Heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara hækkar almennt um 3,81% en verð á mjólkurdufti helst óbreytt.
Rjómi hækkar og fer verðið úr 588 krónum fyrir hálfan lítra í 608 krónur miðað við verð í ótilgreindum stórmarkaði og miðað við að álagning verslunarinnar verði hlutfallslega sú sama og áður.