fbpx
Sunnudagur 02.mars 2025
Fréttir

Lögreglumenn sem skutu byssumanninn á Egilsstöðum ekki sóttir til saka og rannsókn hætt

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 9. desember 2021 12:15

mynd/Eyþór

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðssaksóknari hefur hætt rannsókn á aðgerðum lögreglunnar á Egilsstöðum í lok ágúst á þessu ári þar sem vopnaður maður var skotinn af lögreglu. Að sögn saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara er ekkert sem bendir til þess að um saknæmt athæfi hafi verið að ræða af hálfu lögreglumannanna.

Forsaga málsins er sú að seint um kvöld þann 26. ágúst var lögreglan á Austurlandi kölluð að húsi á Egilsstöðum þar sem maður hafði hleypt af skotum innandyra. Þegar lögreglan kom á staðinn upphófst umsátursástand sem varði í um klukkustund. Þegar maðurinn hafði skotið í átt að lögreglu skutu lögreglumenn til baka og hæfðu manninn þannig að hann slasaðist lífshættulega.

Rannsókn á málinu hófst svo til undir eins og greindu fjölmiðlar frá því strax daginn eftir að fulltrúar héraðssaksóknara væru komnir á staðinn og rannsókn hafin á aðgerðum lögreglu. Héraðssaksóknari fer með rannsókn mála sem snúa að aðgerðum lögreglunnar.

Í skriflegu svari við fyrirspurn DV segir Friðrik Smári Björgvinsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, að ekkert hafi komið fram við rannsókn málsins sem benti til þess að um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða af hálfu lögreglu og hefur sá hluti rannsóknarinnar því verið látinn niður falla.

Hleypti 14 skotum af um kvöldið

Sem fyrr segir var lögreglan kölluð til vegna manns sem hleypt hafði skotum úr haglabyssu inni á heimili á Egilsstöðum. DV sagði frá því nú í lok nóvember að maðurinn hefði verið ákærður af héraðssaksóknara, sama embætti og fór með rannsókn á aðgerðum lögreglu þetta kvöld fyrir austan.

Úr ákærunni, sem DV hefur undir höndum, má lesa að maðurinn hafi fyrst beint .22 kalíbera skammbyssu að sambýliskonu sinni áður en hann ruddist inn á heimili barnsföður hennar og skaut þar samtals 14 skotum úr bæði Beretta haglabyssu og áðurnefndri skammbyssu.

Mun maðurinn bæði hafa beint haglabyssu sinni að tveimur barnungum strákum sem voru á heimilinu er hann ruddist inn. Strákarnir flúðu út um svaladyr og hlupu inn í nærliggjandi skóg fyrir aftan húsið.

Byssumaðurinn skotinn einu skoti

Þegar lögreglan kom á vettvang mun maðurinn hafa skotið út um dyrnar í átt að lögreglu þannig að högl úr haglabyssu mannsins fóru í lögreglubifreiðar, bíl nágrannans og inn um glugga hússins á móti, að því er segir í ákærunni. Sérstaklega er tekið fram í ákærunni að nágranninn hafi verið heima þegar skotárásin átti sér stað.

Svo fór að lokum að lögregla skaut manninn einu skoti þannig að hann særðist lífshættulega. Var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann dvaldi á sjúkrahúsi í nokkrar vikur áður en hann var svo fluttur í gæsluvarðhaldsvist í fangelsið á Hólmsheiði þar sem hann dvelur enn.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að maðurinn hafi verið skotinn í kviðinn, en það hefur ekki fengist staðfest hjá saksóknurum eða fjölskyldu mannsins. Herma heimildir DV að hann kunni að hafa verið skotinn í bringuna. Engar upplýsingar hafa fengist frá lögreglu eða saksóknara um hvernig skotvopni lögregla beitti í aðgerðum sínum.

Tveir lögreglumenn voru með réttarstöðu sakborninga á meðan á rannsókn stóð og var þeim báðum tilkynnt um niðurfellingu rannsóknarinnar í síðustu viku, að sögn Friðriks Smára.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Góa tekur yfir framleiðslu á Omnom

Góa tekur yfir framleiðslu á Omnom
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sverrir Einar sýknaður af háum fjárkröfum vegna notkunar á merkinu B5

Sverrir Einar sýknaður af háum fjárkröfum vegna notkunar á merkinu B5