Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir ritstjóra Morgunblaðsins gefa meiðyrðum og lygum bloggarans og kennarans Páls Vilhjálmssonar byr undir báða vængi með Staksteinum dagsins.
Morgunblaðið birtir í blaði sínu ritstjórnarefni sem nefnist Staksteinar þar sem gjarnan er fjallað um málefni líðandi stundar. Oftar en ekki er í þessum dálk vísað til skrifa bloggarans og kennarans Páls Vilhjálmssonar sem hefur ítrekað á síðustu misserum gagnrýnt RÚV fyrir framgöngu sína gegn Samherja.
Að þessu sinni gerir Morgunblaðið þó fyrirvara við fullyrðingar Páls sem vísað er til í Staksteinum dagsins.
„Páll Vilhjálmsson, öflugur bloggari, hefur fjallað ítarlega um að „lögreglurannsókn standi yfir á starfsháttum RÚV og aðkomu stofnunarinnar að eitrun og stuldi“..“
Þar vísar Morgunblaðið til þess fjölda bloggfærslna Páls þar sem hann lýsir þeirri trú sinni að starfsmenn RÚV hafi átt hlut að því að eitrað var fyrir skipstjóranum Páli Steingrímssyni, en Páll Steingríms er einn meðlima í svonefndri „skæruliðadeild“ Samherja sem gengu svo hart fram í aðför sinni að fjölmiðlamönnum að Samherji þurfti síðar að biðjast afsökunar á því. Áfram halda Staksteinar:
„Hann hefur bent á að stofnunin auglýsi ekki stöðu fréttastjóra þótt sá sem gegnir því fari fljótlega burt. Páll telur að ástæða þess sé sú að lögreglurannsóknin standi yfir og örðugt um mannabreytingar í þeirri stöðu. Það er líkleg ágiskun.
Páll skrifar: „Blaða- og fréttamenn stunda ekki upplýsingamiðlun til almennings þegar starfsbræður og -systur eiga í hlut. Í Norður-Kóreu standa fjölmiðlar vörð um leiðtoga landsins. Á Íslandi eru fjölmiðlar samtaka um að fjalla ekki um glæpi og spillingu í eigin ranni. Líkt og í Norður-Kóreu eru fjölmiðlar á Íslandi á framfæri ríkisins.“ Páll fer það fram úr sér.“
Staksteinar segja að Morgunblaðið hafi leitað svara frá RÚV um ásakanir Páls en ekki fengið svör.
„RÚV“ færð á sjötta milljarð í styrk frá ríkinu. Morgunblaðið fær styrk sem nemur 2% af heildartekjum fyrirtækisins sem gefur það út. Áður hafði ríkið hækkað skatt sem leggst á blaðið en ekki keppninauta þess. Morgunblaðið krafði útvarpsstjóra svara varðandi upplýsingar Páls, og fékk útúrsnúninga og þunnildi. Fyrirtækin í landinu ættu að eiga þá úrklippu til að nota síðar spyrji „RÚV“ þau út úr.
Morgunblaðið hefur ekki getað fengið staðfestingu á sumum fullyrðingum Páls í umræddu máli og gætir því sjálfsagðrar varúðar á meðan það hefur ekki breyst.“
Eins og sést hér að ofan setur Morgunblaðið þann fyrirvara við málflutning Páls að hann hafi ekki fengist staðfestur frá RÚV. En þar fyrir utan er ekki settur fyrirvari við þær alvarlegu ásakanir sem Páll hefur viðrað gegn starfsmönnum RÚV um alvarlegan glæp.
Páll fullyrti á bloggi sínu í gær að lögregla sé nú að rannsaka meinta aðkomu stofnunarinnar að eitrun Páls Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Eins fullyrðir hann að útvarpsstjóra sé ókunnugt um hvaða starfsmenn RÚV liggi þar undir grun og eigi mögulega yfir höfði sér ákæru. Eins er þar fullyrt að „glæpir fjölmiðla sæta fréttabanni.“
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, deilir Staksteinum á Twitter og segir það ekki nýtt að Páll Vilhjálmsson ásaki fjölmiðlamenn um glæpi. Þar á meðal hafi hann ásakað Þórð sjálf og fleiri um slíkt. Þórður segir engan fót fyrir þessum ásökunum og því ekki tilefni til að eyða tíma í að svara Páli sjálfum. Hins vegar hafi Morgunblaðið ákveðið að taka þessi meiðyrði upp í Staksteinum og gefa ásökununum þar með byr undir báða vængi með þessum hálfkærings fyrirvara.
„Bloggari hefur verið að ásaka mig og annað fólk um þátttöku í glæp með síendurteknum brjáluðum færslum. Allt er þetta ósatt og augljós meiðyrði. Í bloggarann ætla ég ekki að eyða meiri tíma. En ritstjórar Moggans ákveða að magna þetta upp með ömurlegasta fyrirvaranum. Botnfall.“
Bloggari hefur verið að ásaka mig og annað fólk um þátttöku í glæp með síendurteknum brjáluðum færslum. Allt er þetta ósatt og augljós meiðyrði. Í bloggarann ætla ég ekki að eyða meiri tíma. En ritstjórar Moggans ákveða að magna þetta upp með ömurlegasta fyrirvaranum. Botnfall. pic.twitter.com/EFDeRwbQYB
— Þórður Snær Júlíusson (@thordursnaer) December 7, 2021