Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Þorsteini að naglar geti sannarlega gert gagn við ákveðnar aðstæður, einkum á blautu svelli. Vetrarþjónusta sá almennt góð í borginni og til mikils sé að vinna með því að hamla gegn svifryki sem kostar tugi manns heilsuna og lífið árlega.
Í frumvarpi frá þingflokki Samfylkingarinnar um að sveitarfélög fái heimild til að sekta ökumenn fyrir notkun nagladekkja kemur fram að naglar slíti malbiki allt að 20 sinnum meira en bílar á ónegldum dekkjum. Þetta sagði Þorsteinn vera mjög varfærið mat. „Nýlegar rannsóknir í Noregi sýna allt að fjörutíufaldan mun,“ sagði hann.
Hann sagði jafnframt að ef mið er tekið af því sliti sem dekkin valdi á gatnakerfinu sé eðlilegt að ökumenn, sem nota negld dekk, greiði aukalega. „Varðandi slysin sýna rannsóknir að heilt yfir verða hugsanlega fleiri smávægileg óhöpp ef ekki eru naglar. Sumar rannsóknir sýna þó engan mun. Ein rannsókn í Finnlandi sýnir meiri slysatíðni hjá þeim sem aka úti á landi naglalausir,“ sagði hann.