Þriggja bíla árekstur varð laust fyrir klukkan níu í gærkvöld þegar ekið var aftan á lögreglubíl sem hafði gefið öðrum bíl merki, með forgangsljósabúnaði, um að stöðva akstur. Við aftanákeyrsluna kastaðist lögreglubíllinn aftan á bílinn sem verið var að stöðva. Einhverjir hlutu minniháttar meiðsl í árekstrinum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en staðsetning er ekki tilgreind að öðru leyti en því að atvikið átti sér stað á umráðasvæði Lögreglustöðvar 4, sem er Grafarvogur, Mosfellsbær og Árbær.
Klukkan tíu mínútur fyrir eitt í nótt var tilkynnt um umferðarslys á Sæbraut, þar hafði ökumaður misst stjórn á bíl sínum og hafnaði hann á umferðarskilti. Ekki koma fram meiri upplýsingar í dagbók lögreglu um slysið.
Upp úr klukkan fjögur var tilkynnt um ógnandi gest á gistiheimili miðsvæðis í borginni. Fór lögregla á vettvang og neitaði gesturinn að yfirgefa staðinn. Var hann þá handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglu.
Alls voru 98 mál skráð í kerfi lögreglu frá kl. 17 í gær til 5 í morgun. Meðal annars segir frá slagsmálum í miðborginni sem eru ekki nánar tilgreind, auk nokkurra umferðaróhappa en mikil hálka var og er á götum höfuðborgarsvæðisins.