Félag sem rekur moskuna í Ýmishúsinu í Skógarhlíð lánaði íslömskum skóla í Svíþjóð rúmar 110 milljónir króna. Alsalamaskólinn í Örebro er múslímur einkaskóli sem auk láns frá íslensku moskunni er rekinn með opinberu fé. Framlag sveitarfélagsins til skólans eru um 50 milljónir sænskra króna sem gera um 700 milljónir íslenskra króna. Sænska ríkisútvarpið greindi frá málinu en Stundin fjallaði um það fyrst íslenskra miðla.
Í sænski miðillinn greinir frá því að Alsalamaskólinn hafi síðan greitt vexti af láninu og hafi þeir numið, á árunum 2019 til 2020, alls 1,2 milljónum sænskra króna eða 18 milljónum króna.
Í umfjölluninni ytra er varpað fram þeirri kenningu að fjárfestar frá Sádi-Arabíu vilji fjármagna moskur og skóla til þess að seilast mögulega til áhrifa í löndunum. Þannig hafi lán íslensku moskunnar mögulega verið til þess fallið að koma peningum frá Svíþjóð til Íslands í gegnum vaxtagreiðslurnar af láninu. Skólinn sem slíkur sé mjög fjársterkur enda fái hann góðan stuðning frá hinu opinbera.
Í viðtali við Stundina segir Karim Azkari, framkvæmdastjóri íslensku moskunnar, að um fjárfestingu hafi verið að ræða. Alsalamaskólinn hafi verið að stækka og vantað peninga til að fjármagna stækkunina. Íslenska moskan hafi því veitt þeim lán til fimm ára. Þá bendir Azkari á að samstarfið sé tilkomið vegna þess að stjórnarmaður í íslensku moskunni hafi verið í stjórn Alsalamaskólans.
Hann segir að um eigið fé moskunnar hafi verið að ræða og að vissulega hafi eitthvað af þeim fjármunum komið frá Sádi Arabíu. Hins vegar hafi moskan líka fengið fjármagn frá íslenska ríkinu.
Nánar er fjallað um málið á vef Stundarinnar.