Þórólfur Marel Jónasson birti á dögunum færslu í Facebook-hópnum vinsæla Matartips sem vakið hefur gífurlega athygli. „Vildi benda fólki á okrið á ostakössunum frá MS sem eru til sölu í Nettó,“ skrifar Þórólfur í færslunni en hann tók sig til og athugaði hvað vörurnar í kassanum myndu kosta samtals ef þær yrðu keyptar í lausasölu.
Við þessa athugun sína komst Þórólfur að því að vörurnar kostuðu samtals 5.485 krónur en ostakassinn með vörunum saman kostaði heilar 9.449 krónur. „Ert að borga 4.014kr fyrir kassann,“ segir hann ósáttur.
Þórólfur tekur fram að hann hafi að vísu ekki fundið nákvæmlega sömu bláberjasultu og var í kassanum. „En þessi sem ég setti í þennan útreikning er helmingi stærri,“ segir hann. Fyrir utan bláberjasultuna var hann með nákvæmlega sömu vörurnar og í kassanum.
DV hafði samband við Mjólkursamsöluna og komst að því að ostakassinn sem um ræðir kostar frá þeim 8.000 krónur án virðisaukaskatts. Með virðisaukaskatti er talan nær 9.000 krónunum. Það virðist því ekki vera sem álagningin hjá Nettó sé neitt rosaleg.
Meðlimir Matartips eru allt annað en ánægðir með þennan mismun og ausa margir úr skálum reiði sinnar í athugasemdunum við færslu Þórólfs. „Ég á bara ekki til orð,“ segir til að mynda kona nokkur í einni athugasemdinni. „Þetta er náttúrlega ekki í lagi,“ segir önnur. „Þetta er bara þjófnaður,“ segir svo enn önnur.
Nokkrir athugulir neytendur segjast í athugasemdum hafa tekið eftir þessum mismun í gjafakössum fyrir löngu síðan og ákveðið eftir það að útbúa svona kassa sjálf. „Ég geri svona körfur alltaf sjálf til að gefa og bæti þá gjarnan við kaffipakka sérvettum og kerti eða rauðvíni,“ segir til dæmis kona nokkur.
Maður nokkur segir þá að mismunur sem þessi einskorðist alls ekki við Mjólkursamsöluna.
„Sem dæmi þá var laxakassi sem var með tvær tegundir af laxi, einhverja sósu og eitthvað dót með því sem ég keypti fyrir 2 árum. Ég borða mikið af reyktum lax og hjó þess vegna strax eftir því hvað þetta væri dýrt fyrir hálft kíló af reyktum laxi og viðbiti. Eftir snöggan hring inn í versluninni var ég búinn að reikna það út í símanum að kassinn væri hátt í 50% dýrari en ef ég tæki sömu vörur úr hillunum stakar. Og eini munurinn var einhver þunnur pappakassi með mjög basic hönnun, og það var betri dagsetning á flestum vörunum sem voru utan kassans.“