Héraðssaksóknari hefur ákært konu á sexugsaldri og ríflega þrítugan karlmanna fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í tvígang smyglað MDMA töflum til landsins. Eru þau sögð hafa smyglað 500 töflum í fyrra skiptið og 501 töflu síðar.
Segir í ákærunni að karlmaðurinn hafi skipulagt og fjármagnað innflutninginn. Mun hann hafa sent töflurnar með póstsendingu frá Belgíu til Íslands. Pakkinn barst til landsins 21. desember 2020 og mun konan hafa sótt hann þann 6. janúar og afhent karlmanninum pakkann þann sama dag í Kópavogi. Samkvæmt ákærunni voru 500 töflur í sendingunni.
Sama var uppi á teningnum í febrúar á þessu ári, en þá barst annar pakki til Íslands frá Belgíu með 501 MDMA töflum. „Pakkinn barst til Íslands 2. febrúar og uppgötvuðu starfsmenn tollsins að fíkniefni væru í pakkanum og tilkynntu það til lögreglu sem skipti fíkniefnunum út fyrir gerviefni,“ segir í ákærunni. Aftur sótti konan pakkann á pósthús, þá þann 4. febrúar, og afhenti karlmanninum síðar þann sama dag.
Til viðbótar við hið meinta smygl er maðurinn ákærður fyrir að hafa haft í fórum sínum rúm 2 grömm af kókaíni og um 23 stk af MDMA töflum sem lögregla fann í húsleit á heimili hans.
Saksóknari krefst þess að þau verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá eru upptöku haldlagðra fíkniefna og 262 þúsund króna í seðlum krafist.