Þetta er yfirskrift pistils sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar en pistillinn var birtur í Morgunblaðinu í dag. Eins og yfirskriftin gefur til kynna þá fjallar pistillinn um neyslurými og að slíkt rými verði opnað í Reykjavík. Í pistlinum útskýrir Svandís hvað hún á við þegar hún talar um neyslurými, um sé að ræða lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar, 18 ára og eldri, geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti starfsfólks. Í neyslurýminu yrði gætt fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.
„Neyslurými byggjast á hugmyndafræði skaðaminnkunar en í henni felst að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra ávana- og fíkniefna.“
Í pistlinum útskýrir Svandís nánar hvað hún á við með skaðaminnkun og hvaða áhrif hún hefur á einstaklinga og samfélagið í heild sinni. „Skaðaminnkun er hugmyndafræði sem ég hef lagt áherslu á og felst í aðgerðum sem hafa það markmið að fyrirbyggja skaða fremur en að fyrirbyggja sjálfa notkun vímuefna. Þannig hefur skaðaminnkun sterka skírskotun til lýðheilsu og mannréttinda og þá nálgun að vinna skuli með þjónustuþegum án þess að dæma eða mismuna. Rannsóknir sýna fram á að skaðaminnkandi nálgun hefur jákvæð áhrif á heilsu einstaklinga og samfélagið í heild,“ segir hún.
„Jafnframt byggist skaðaminnkun á því að viðurkennt sé að fjöldi fólks víða um heim heldur áfram að nota ávana- og fíkniefni þrátt fyrir jafnvel ýtrustu viðleitni í samfélaginu til að fyrirbyggja upphaf eða áframhaldandi notkun efnanna.“
Frumvarp Svandísar um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefna var samþykkt af Alþingi í maí árið 2020. „Lagabreytingin felur í sér stórt skref í átt að aukinni áherslu á skaðaminnkun hér á landi,“ segir Svandís en í breytingunni felst heimild til sveitarfélaga til að koma á fót umræddu neyslurými.
„Um nokkurra ára skeið hefur verið til umræðu hvort opna eigi neyslurými hér á landi en slík rými eru rekin víða um heim. Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að skaðaminnkun gagnist ekki aðeins fólki sem notar ávana- og fíkniefni, heldur einnig fjölskyldum þess, nærsamfélagi notandans og samfélaginu í heild.“
Svandís segir að þörf sé á valkosti eins og neyslurými fyrir þá einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna í æð, með þeim sé hægt að lágmarka áhættu og skaða af áframhaldandi notkun.
„Alls eru rekin um 90 neyslurými um heim allan en slík rými hafa til dæmis verið starfrækt í Danmörku og Noregi með góðum árangri. Með því að heimila rekstur neyslurýma náum við einnig til hóps fólks sem sækir sér síður þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarf á að halda, til dæmis til að fyrirbyggja eða meðhöndla alvarlegar sýkingar vegna neyslu, veita aðstoð og ráðgjöf um getnaðarvarnir og svo framvegis.“
Eftir að frumvarp Svandísar var samþykkt hefur verið unnið að því að koma á fót neyslurými í Reykjavík. „Nú í nóvember samþykkti velferðarráð Reykjavíkurborgar samning milli Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands um að fela Rauða krossinum rekstur færanlegs neyslurýmis í Reykjavík. Því er útlit fyrir að neyslurými verði opnað í Reykjavík fljótlega eftir áramót,“ segir Svandís.
Að lokum hrósar hún sigri og segir að með þessu sé verið að stuðla að betra samfélagi. „Það er fagnaðarefni að loksins verði öruggt neyslurými að veruleika í Reykjavík, og bylting fyrir einn jaðarsettasta hóp samfélagsins. Þar með stuðlum við að enn betra samfélagi.“